Nýtt verkefni Barnaheilla í Írak

Í dag hefst formlega mannúðarverkefni Barnaheilla í Írak. Verkefnið er unnið í samstarfi við skrifstofu Barnaheilla – Save the Children í Írak og verður framkvæmt í norðurhluta landsins sem áður tilheyrði hryðjuverkasamtökunum ISIS. Verkefnið er stutt af utanríkisráðuneyti Íslands.
Verkefnið miðar að því að aðlaga írösk börn, sem dvelja í flóttamannabúðum, að írösku samfélagi, sem og að styrkja barnaverndarkerfi og efla og bæta líðan barna sem búið hafa lengi í flóttamannabúðum.
Milljónir lögðu á flótta
Írak hefur landamæri að Sýrlandi, Tyrklandi, Kúveit, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Íran. Árið 2014 náðu hryðjuverkasamtökin ISIS yfirráðum yfir 61.500 ferkílómetra landsvæði í Írak og Sýrlandi og lögðust milljónir manna á flótta.

ISIS stóð fyrir stórtækum ofsóknum, ofbeldisverkum og kúgun á valdasvæði sínu. Fjöldamorð voru framin og þúsundir kvenna og stúlkna voru hnepptar í kynlífsþrældóm og seldar á þrælamörkuðum við Persaflóa.
Enn á flótta 10 árum seinna
Í desember 2017 hafði ISIS misst megnið að yfirráðasvæði sínu og réðu aðeins 2% af því svæði sem þeir höfðu tekið yfir og er í Sýrlandi. Þá hafði Írak endurheimt landsvæði sitt á ný, en þrátt fyrir það eru enn 1.2 milljónir Íraka á flótta innan eigin lands og hafa átt erfitt með að fóta sig á ný. Átökin hafa því enn mikil áhrif á líf fólksins sem þurfti að leggjast á flótta.
Verkefni barnaheilla

Eins og með öll erlend verkefni sem Barnaheill koma að þá fer starfsfólk samtakanna á vettvang, hittir starfsfólk sem vinnur á svæðinu og heyrir sögur frá fólki sem býr og vinnur á vettvangi. Í febrúar fóru því Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Kristín Ýr Gunnarsdóttir, kynningar- og markaðsstjóri og Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna til Íraks og heimsóttu þar samstarfsfólk á skrifstofu Barnaheilla í Erbil. Þær fóru einnig í vettvangsferð í flóttamannabúðinar Kabartu 1, sem eru rétt utan við borgina Duhok í norðurhluta Írak en þær eru ásamt Jada’a flóttamannabúðunum, þær flóttamannabúðir sem Barnaheill sinna verkefninu í.
Það er ljóst að þörfin á mannúðaraðstoð í norðurhluta Íraks er mikil. Við heimsóttum börn í flóttamannabúðum sem þekkja ekkert annað líf en lífið í tjaldbúðunum. Þar er mikill skortur á grunnþjónustu. Á veturna upplifa þau nístandi kulda þar sem hitastigið fer undir frostmark en á sumrin er svo heitt að tjöldin, heimili þeirra, eiga á hættu að brenna. Þetta er líf sem ekkert barn í þessum heimi á að þurfa að upplifa
Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri

Jada’a flóttamannabúðirnar
Jada’a flóttamannabúðirnar eru staðsettar í Ninewa héraði og eru helsti áfangastaður flóttafólks sem hafa dvalið í Al-Hol flóttamannabúðunum í Sýrlandi, en milljónir Íraka hafa snúið til baka eftir að hafa dvalið þar. Um 70% þeirra sem dvelja í búðunum eru undir 17 ára og 20% undir 5 ára. Grunnþjónusta í búðunum er af skornum skammti og eru börn gífurlega útsett fyrir ofbeldi og vanrækslu.
Kabartu 1 flóttamannabúðirnar
Í Kabartu 1 flóttamannabúðunum búa rúmlega 9.000 einstaklingar og þar af eru tæplega 4.000 börn. Fjölskyldurnar hafa meðal annars flúið frá borginni Sinjar, sem er staðsett í fjöllunum rétt við landamæri Sýrlands. Borgin var gjöreyðilögð af ISIS árið 2014 og lögðu fjölskyldurnar á flótta.
Við eigum þrjú börn og þau eru öll fædd hér í flóttamannabúðunum. Í tíu ár höfum við verið hér og það eru engin áform um að stjórnvöld endurbyggi þorpið okkar. Við getum hvergi farið.
Þriggja barna faðir og íbúi í Kabartu 1

Eitt hættulegasta svæðið í Írak
Í Sinjar eru heimili og byggingar enn í rúst. Götur eru þaktar braki og sprengjuleifum, sem gerir svæðið að einu af þeim hættulegustu í Írak vegna ósprengdra skotfæra sem þar leynast. Innviða skemmdirnar takmarka verulega aðgang að vatni og rafmagni, og skortur er á skólum og sjúkrahúsum fyrir þá sem snúa aftur heim. Enn í dag eru engin áform um uppbyggingu borgarinnar og framtíð fólksins á flótta því óljós.
Það er mjög erfitt að búa í tjöldum í þessum hita. Á veturna, þegar mikil rigning er, verður allt rennandi blautt. Börnin hafa engan stað til að leika sér á, þau leika sér á götunum sem eru fullar af flækingsdýrum. Börnin fá sjúkdóma vegna óhreininda. Unglingar og litlar stelpur, jafnvel þær sem eru aðeins um tíu ára gamlar, segja oft að þær vildu frekar vera dauðar en að þurfa að lifa svona.
Viyan 15 ára, sem flúði frá Sinjar

Tíu árum síðar eru enn yfir 1.000 börn týnd. Fjölskyldur eru enn sundraðar. Börn hafa búið í tjöldum í meira en áratug, með ófullnægjandi aðgang að grunnþjónustu og án möguleika á að snúa aftur heim á sjálfviljugan og virðulegan hátt
Sarra Ghazi, landsstjóri Barnaheilla - Save the Children í Írak
Markmið okkar er að tryggja að írösk börn á flótta, eins og öll börn, njóti réttar til öryggis, stöðugleika og bjartrar framtíðar. Alþjóðsamtök Barnaheilla – Save the Children hafa starfað í Írak síðan 1991.
Hér er hægt að styðja við verkefni Barnaheilla. Hjálpumst að og verndum börn í Írak og um allan heim.