Barnaheill bjóða upp á námskeið og fyrirlestra þar sem hægt er að öðlast þekkingu og fræðslu og bæta verklag í forvörnum gegn ofbeldi á börnum.

Við teljum að fræðsla og upplýst umræða sé besta forvörnin og stuðli að því að við sem samfélag verðum betur í stakk búin  til að takast á við og koma í veg fyrir óæskilega hegðun.Einelti og kynferðisofbeldi gagnvart börnum er alvarlegt, alþjóðlegt vandamál og eru vitundarvakning, fræðsla og forvarnir afar mikilvæg tæki í baráttunni gegn því.

Útgáfa á fræðsluefni  er ríkur þáttur í starfsemi Barnaheilla . Þar ber hæst útgáfa efnisins Vinátta – Fri for mobberi sem ætlað er að sporna gegn einelti og er hugsað fyrir leikskóla og yngstu bekki grunnskóla. Einnig höfum við í samvinnu við fjórar Evrópuþjóðir unnið að því að þróa fræðslu og forvarnarefni um kynheilbrigði barna undir nafninu CSAPE (Child Sexual Abuse Prevention and Education). Markmiðið með þessu verkefni er að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum með því að fræða börn, fullorðna og þá aðila sem vinna náið með börnum s.s. í skólakerfinu, íþróttum og frístundum.

Börn bera aldrei ábyrgð á því ofbeldi sem þau verða fyrir eða horfa upp á og það á aldrei að líðast.

VINÁTTA

Vinátta er forvarnarverkefni okkar gegn einelti. Í Vináttu er aðal áherslan lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti, samkennd, umhyggju, vináttu og vellíðan.

HEILLABRAUT- UNGMENNI

Hefur þú spurningar varðandi kynheilbrigði, sambönd, samskipti eða jafnvel ofbeldi? Hefur þú áhyggjur af kynferðislegum hugsunum þínum? Hér má finna ýmsar vangaveltur og svör við pælingum ungs fólks.

CSAPE

Fimm Evrópulönd tóku höndum saman að efla forvarnir gegn kynferðislegri misnotkun á börnum. CSAPE verkefnið hefur náð mikilvægum árangri í að vekja athygli, fræða hagsmunaaðila og styrkja bæði fagfólk, börn og ungmenni í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun á börnum.

HEILLABRAUT - FRÆÐSLA & RÁÐGJÖF

Markmið Heillabrautar er að fækka kynferðisbrotum gegn börnum og ungmennum. Það viljum við gera með fræðslu og stuðningi við börn og ungmenni, foreldra og fagfólk, öllum til heilla.

Hér má finna upplýsingar um fræðsluerindi og námskeið í boði árið 2025.