HEILLABRAUT 2025 – FRÆÐSLA OG RÁÐGJÖF

Heillabraut er nýtt verkefni Barnaheilla, byggt á evrópska samstarfsverkefninu CSAPE, sem snýr að kynheilbrigðismálum og ofbeldisforvörnum. Verkefnið hefur verið stækkað og staðfært í samræmi við íslenskar aðstæður. Á Íslandi verður fjöldi barna fyrir kynferðisofbeldi á hverju ári, hvort sem er af hendi jafnaldra eða fullorðinna. Samkvæmt Íslensku æskulýðsrannsókninni hefur innan við helmingur þeirra barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og nú eru að klára grunnskóla sagt einhverjum frá ofbeldinu. Markmið Heillabrautar er að fækka kynferðisbrotum gegn börnum og ungmennum. Það viljum við gera með fræðslu og stuðningi við börn og ungmenni, foreldra og fagfólk, öllum til heilla. Hér fyrir neðan má sjá þau fræðsluerindi og námskeið sem við bjóðum upp á.

RAUÐU LJÓSIN OG RÉTT VIÐBRÖGÐ

Fólk sem starfar með börnum og ungmennum og foreldrar/forsjáraðilar ættu að hafa grunnþekkingu á kynferðisofbeldi til að geta komið auga á rauðu ljósin, gripið til réttra viðbragða og þekkt helstu úrræði og þá aðstoð sem er í boði. ​

ÓÆSKILEGAR KYNFERÐISLEGAR HUGSANIR

Ungmenni sem hafa óæskilegar kynferðislegar hugsanir t.d. í garð mun yngri barna eiga rétt á aðstoð og stuðning. Með aðstoð er hægt að fá réttu verkfærin til að ná stjórn á hugsunum og hegðun og þar með minnka líkurnar á óæskilegri eða jafnvel skaðlegri/ólöglegri hegðun. ​


fjögur helstu markmið með verkefninu heillabraut eru að:

Fækka kynferðisbrotum gegn börnum og unglingum og stækka hóp þeirra sem segja frá.
Hvetja einstaklinga sem farið hafa út af brautinni eða eru í hættu á að gera slíkt t.d. unglinga eða fullorðna sem hafa kynferðislegar hugsanir í garð barna til að leita sér hjálpar
Fræða foreldra og fólk sem starfar með börnum og ungmennum um kynferðisofbeldi gegn börnum.
Veita fullorðnum ráðgjöf varðandi kynferðisofbeldi gegn börnum eða milli barna/ungmenna

Fræðsla fyrir foreldra og starfsfólk - 1 klukkustund (1,5 klst með umræðum)

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi milli ungmenna

    Hvernig birtist kynferðisleg áreitni og ofbeldi milli ungmenna?
    Áhættu- og áhrifaþættir
    Staðan á Íslandi í dag
    Að bregðast rétt við
    Mikilvæg skref í úrvinnslu
    Úrræði og aðstoð

Ungmenni sem hafa kynferðislegar hugsanir í garð barna

    Kynheilbrigði og kynþroski
    Áhyggjur af kynferðislegum hugsunum eða hegðun
    Áhættuþættir
    Að fá ungmenni til að segja frá
    Að bregðast rétt við
    Úrræði og aðstoð í boði

Námskeið fyrir starfsfólk - 3 klukkustundir

Þátttakendur fá aðgengi að handbók með gagnlegum upplýsingum í kjölfar námskeiðs.

Nemendafræðsla (miðað við unglingastig og framhaldsskóla)

Hámark 30 nemendur – 1 klukkustund

Ráðgjöf

Til að óska eftir ráðgjöf, varðandi mál er varða kynferðisofbeldi gegn börnum eða milli barna/ungmenna, geta stjórnendur, starfsfólk og forsjáraðilar haft samband við Kolbrúnu Hrund, verkefnastýru ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum, með því að senda á netfangið kolla@barnaheill.is. 

Verkefnastýra Heillabrautar

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir stýrir verkefninu Heillabraut. Hún er grunnskólakennari, með MA gráðu í kynjafræði og diplómu í kynfræði. Kolbrún stýrði Jafnréttisskóla Reykjavíkur í 8 ár og bar þar m.a. ábyrgð á kynheilbrigðismálum í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Hún innleiddi Viku6 á Íslandi og stýrði ráðgjafa- og viðbragðsteymi Reykjavíkurborgar varðandi óæskilega kynhegðun og kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi.Kolbrún situr í fagráði um kynheilbrigði hjá Embætti Landlæknis og er einnig ráðgjafi á Sjúku spjalli sem er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni á vegum Stígamóta.

Fyrir skráningu á námskeið og frekari upplýsingar um Heillabraut og CSAPE má hafa samband á barnaheill@barnaheill.is eða kolla@barnaheill.is
Hér má sjá verðskrá.