Kynferðisofbeldi gegn börnum hefur þrefaldast í Kongó á þessu ári

Kynferðisofbeldi gegn börnum á átakasvæðum í heiminum hefur aukist um 50% á síðustu fimm árum. Fjöldi kynferðisofbeldismála hefur aldrei verið meiri síðan mælingar hófust og hefur tilfellum hópnauðgana fjölgað gífurlega á undanförnu ári. Þetta kemur fram í nýrri árskýrslu aðalritara Sameinuðu þjóðanna um börn og vopnuð átök. Í skýrslunni er fjallað um að börn á átakasvæðum eru töluvert útsettari fyrir ofbeldi en önnur börn, og hefur ástandið aldrei verið verra í löndum eins og Haítí, Nígeríu og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi starfa í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó en þar hefur fjöldi kynferðisbrotamála gegn börnum þrefaldast á þessu ári. Með vaxandi átökum á svæðinu hafa fleiri en 1 milljón manna neyðst til að flýja heimili sín og er algengt að börn séu ein á vergangi sem eykur líkurnar á að þau verði fyrir ofbeldi. Í austurhluta landsins reka Barnaheill á Íslandi fjögur Barnvæn svæði þar sem börn geta komið og sótt öruggt skjól. Þar bjóða Barnaheill meðal annars upp á sálrænan stuðning fyrir börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.
Rebecca, 16 ára, er ein þeirra sem hefur fengið sálrænan stuðning í kjölfar ofbeldis sem hún varð fyrir:
„Ég var að leita að eldivið í skóginum þegar ég lenti í klóm vopnaðra manna. Þeir nauðguðu mér allir. Ég öskraði á hjálp en enginn heyrði í mér. Þegar ég kom heim fann ég fyrir skömm og ég sagði engum frá hvað hafði gerst.“
Rita 16 ára, einnig frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, varð fyrir hrottalegu ofbeldi ásamt systur sinni og móður og leitaði hún til Barnaheilla til að vinna úr ofbeldinu:
,,Við vorum heima, ég, mamma mín og systir. Við voru nýlega komnar heim aftur eftir að hafa neyðst til að flýja þorpið okkar nokkrum vikum áður. Vopnaðir menn ruddust inn og nauðguðu mér, systur minni og mömmu minni. Við flúðum yfir til Búrundí daginn eftir og það var erfitt að horfa í augu móður minnar. Ofbeldið skapaði stóra gjá á milli okkar og við höfum aldrei rætt það sem gerðist.”
Umfang og alvarleiki kynferðisofbeldis gegn börnum í vopnuðum átökum kallar á tafarlausar aðgerðir alþjóðasamfélagsins. Með vaxandi átökum í heiminum hafa ríki heims skorið niður fjármagn til mannúðaraðstoðar, einmitt nú þegar þörfin hefur aldrei verið meiri. Líf milljóna barna eru í húfi.
Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla segir aldrei mikilvægara en nú að allir standi saman að því að tryggja réttindi barna:
,,Þegar börn þurfa að þola miskunnarlaust ofbeldi á átakasvæðum berum við öll ábyrgð. Hryllingurinn sem þau horfast í augu við eykst með hverju árinu og það er ljóst að við verðum öll að snúa bökum saman og hjálpast að við að tryggja öryggi þessara barna.”
Þú getur stutt starf Barnaheilla – Save the Children með stökum styrk og lagt þannig þitt af mörkum til að hjálpa börnum í neyð.