Barnaheill og utanríkisráðuneytið gera méð sér rammasamning til fjögurra ára

Í dag undirrituðu Barnaheill rammasamning við utanríkisráðuneytið á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Rammasamningurinn nær til fjögurra ára, fyrir árin 2025-2028 og veitir Barnaheillum fyrirsjáanleika í alþjóðastarfi sem auðveldar skipulagningu verkefna og eykur viðbragðsflýti neyðaraðstoðar. Þetta er í annað sinn sem Barnaheill og utanríkisráðuneytið undirrita slíkan samning.
Að sögn Tótlu I. Sæmundsdóttur framkvæmdastjóra Barnaheilla er gríðarlega mikilvægt að styðja við mannúðar- og þróunarsamvinnu. ,,Það eru miklar umbreytingar í heiminum í dag þegar kemur að fjármagni til mannúðar- og þróunarsamvinnu. Stuðningur utanríkisráðuneytisins er mikil líflína fyrir alþjóðastarf Barnaheilla og þökkum við ráðuneytinu kærlega fyrir stuðninginn og traustið.”
Meðal alþjóðaverkefna Barnaheilla sem njóta stuðnings fyrir tilstuðlan rammasamnings er m.a. þróunarverkefni í Síerra Leóne sem hófst árið 2021 og miðar að því að vernda börn gegn ofbeldi í og við skóla í 10 samfélögum í Pujehun héraði. Einnig hófu Barnaheill þróunarsamvinnu í Líberíu og í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó árið 2023. Að endingu hafa Barnaheill veitt mannúðaraðstoð í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó síðan 2023 og veitt framlög í Viðbragðssjóð alþjóðasamtaka Barnaheilla árlega. Á þessu ári munu Barnaheill hefja ný verkefni, annarsvegar mannúðaraðstoð í norðanverðu Írak þar sem áhersla verður lögð á vernd barna og hinsvegar mannúðaraðstoð í Madagaskar, með áherslu á loftslagsvanda á sunnanverðri eyjunni.