Barnaheill hefja nýtt mannúðarverkefni í Madagaskar

Meira en 14.000 manns hafa neyðst til að flýja heimili sín eftir að hitabeltisstormurinn Jude reið yfir sunnanverða Madagaskar fyrr í mánuðinum. Stormurinn hefur valdið miklu tjóni á innviðum og ræktarlandi og um 4.000 heimili hafa eyðilagst. 89 skólar urðu fyrir miklum skemmdum og 182 skólar skemmdust töluvert, sem hefur haft áhrif á skólagöngu 48.000 nemenda.
Mikil neyð blasir við á svæðinu en um 92% íbúa á sunnanverðri Madagaskar lifa nú þegar undir fátæktarmörkum. Madagaskar hefur orðið illilega fyrir barðinu á loftlagsbreytingum og hafa veðuröfgar bein áhrif á rétt barna til þess að lifa öruggu og heilbrigðu lífi. Fjöldi barna býr við mikla hungursneyð og mörg þeirra hafa ekki aðgang að menntun.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru að hefja nýtt mannúðarverkefni í suðurhluta Madagaskar með áherslu á viðbrögð við loftlagsvánni. Verkefnið er stutt af utanríkisráðuneyti Íslands í gegnum rammasamning. Meginmarkmið verkefnisins er að bæta vellíðan og draga úr fátækt barna á þurrkasvæðum í suðurhluta Madagaskar. Versnandi ástand á svæðinu hefur leitt af sér meiri fátækt og hungursneyð og við þessar aðstæður eru börn útsettari fyrir hvers kyns ofbeldi, misnotkun og vanrækslu en áður. Þar að auki eru mörg börn á skólaaldri svipt menntun og látin vinna til að afla fjölskyldum tekna.