Vitundarvakningin #ÉGLOFA hefst í dag

Í dag hefst vitundarvakning Barnaheilla sem ber nafnið #ÉGLOFA og snýst um að vekja fullorðna til vitundar um umfang kynferðisofbeldis gegn börnum á Íslandi og hvernig megi bregðast við vandanum. Því miður er staðreyndin sú að alltof mörg börn eru beitt kynferðisofbeldi og alltof fá þeirra segja frá ofbeldinu.

Vitundarvakningunni verður hrint úr vör með vinnustofu ungmenna úr 10. bekk og framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu til að ræða hvað þau telji að fullorðnir geti gert betur í málaflokknum þegar kemur að forvörnum, viðbrögðum eða almennri umræðu. Hvað þau telji að þurfi að gerast til að tilvikum fækki og fleiri treysti sér til að segja frá. Einnig verður haldinn sambærilegur fjarfundur mánudaginn 7. apríl með ungmennum af landsbyggðinni.

Laugardaginn 5. apríl og sunnudaginn 6. apríl verða samtökin svo stödd í Kringlunni þar sem fólki gefst kostur á að taka þátt í vitundarvakningunni með því að taka mynd af sér og deila áfram á samfélagsmiðla. Einnig verða til sölu naglalökk og varningur til styrktar Barnaheillum, sem rennur áfram í fræðslustörf og verkefni okkar sem snúa að forvörnum gegn hverskyns ofbeldi á börnum.

#ÉGLOFA – Opinn fræðslufundur um kynferðisofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 9. apríl verður boðið upp á opinn fræðslufund um kynferðisofbeldi gegn börnum. Rætt verður um mikilvægi þess að setja upp fjölbreyttar hindranir fyrir mögulega gerendur og hvernig má vera vakandi fyrir rauðu ljósunum bæði hjá börnum og fullorðnum. Einnig verða helstu birtingarmyndir kynferðisofbeldis gegn börnum skoðaðar og ljósi varpað á stöðuna á Íslandi í dag. Að lokum verður farið yfir viðbrögð og úrræði sem hægt er að leita í ef barn segir frá kynferðisofbeldi.

Fundurinn hentar sérstaklega vel fyrir forsjáraðila og fólk sem starfar með eða í þágu barna og unglinga. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir verkefnastýra Heillabrautar, sem er ofbeldisforvarnar- og kynheilbrigðisverkefni Barnaheilla sér um fræðsluna.

Skráning er nauðsynleg, hér má finna hlekk á skráningu 

Um #ÉGLOFA

Vitundarvakningin #ÉGLOFA er ákall til fullorðinna í samfélaginu um að leggja sitt af mörkum til að útrýma kynferðisofbeldi gegn börnum. Ásamt samtali við ungmenni hvetjum við fólk, fyrirtæki og stofnanir til að taka þátt með því að gefa litla fingurs loforð á samfélagsmiðlum og birta undir myllumerkinu #ÉGLOFA og skora á aðra að gera slíkt hið sama.

Samkvæmt íslensku æskulýðsrannsókninni árið 2024 sögðu um 700 börn í 8. til 10 bekk að annar unglingur hefði haft við þau samfarir eða munnmök gegn vilja þeirra, 250 á sama aldri sögðu að einhver fullorðinn, a.m.k. fimm árum eldri, hefði haft samfarir eða munnmök við þau einhvern tíma á lífsleiðinni. Innan við helmingur þeirra barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi segjast hafa sagt einhverjum frá ofbeldinu.

„Þessi mikli fjöldi barna og ótti við að segja frá er algjörlega óásættanlegur og við hjá Barnaheillum trúum því að ef samfélagið tekur höndum saman þá getum við í sameiningu gert margfalt betur í að vernda börn. Við þurfum öll sem eitt að þora að horfast í augu við vandann og mynda skjaldborg utan um börn,“ segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra kynheilbrigðis- og ofbeldismála hjá Barnaheillum.

„Með þessu erum við að vekja umræðu og öll sem eitt að lofa að líta ekki undan, tala upphátt um kynferðisofbeldi, fræðast, hlusta, bregðast við og senda skýr skilaboð til barna um að þau fái stuðning ef þau segja frá,“ segir Kolbrún einnig.