Barnaheill – Save the Children bregðast við jarðskjálftum í Mjanmar með björgunaraðstoð

Að minnsta kosti 1.600 manns létu lífið í jarðskjálfta sem sem reið yfir Mjanmar 28. mars og mældist 7,7 stig.
Barnaheill – Save the Children vinna nú með samstarfsaðilum sínum að því að bregðast við brýnni þörf barna og fjölskyldna á svæðum sem hafa orðið fyrir áhrifum jarðskjálftans. Skemmdir vegir og slitnar símalínur, ásamt áframhaldandi hættu á eftirskjálftum, hindra starf hjálparstofnana. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar eru yfirfullar og þúsundir slasaðra og fjölskyldur þeirra hafa leitað skjóls í klaustrum, á fótboltavöllum og á öðrum opnum svæðum af ótta við eftirskjálfta.
Maung Maung Khin, 48 ára íbúi í Shan fylki og faðir tveggja ungra barna, býr í bæ sem varð fyrir miklum skemmdum. Þar er bráður vatnsskortur, þar sem margir reiða sig á geymt regnvatn. Að minnsta kosti 1.200 hús og þrír skólar hafa verið stórskemmdir eða eyðilagðir í Shan.
„Börn og gamalmenni upplifðu mikinn svima og yfirlið. Sumir voru lagðir inn á sjúkrahús. Jarðskjálftinn var ótrúlega sterkur og við vorum öll í áfalli. Ung börn grétu og öskruðu af ótta. Margt fólk, sérstaklega í hæðóttum svæðum, hefur ekki þorað að snúa aftur heim vegna ótta við eftirskjálfta.”
„Þar sem mörg hús eru eyðilögð er matur og vatn meðal brýnustu þarfa fyrir börn og fjölskyldur. Þar að auki, þar sem mörg heimili og mannvirki í þeim hlutum sem verst hafa orðið úti í bænum hafa eyðilagst, er mikil þörf fyrir tímabundin skjól eða örugga staði fyrir fjölskyldur á flótta.“
Eftir jarðskjálftann var neyðarástandi lýst yfir á sex svæðum sem urðu fyrir mestum áhrifum – Sagaing, Mandalay, Magway, Bago, Shan og Naypyidaw. Á þessum svæðum búa meira en 28 milljónir manna – um helmingur íbúa Mjanmar – þar á meðal er áætlað að séu 6,7 milljónir barna.
Í nágrannalandinu Tælandi eru margir skólar og aðrar byggingar enn óöruggar eftir jarðskjálftann, sem gæti haft áhrif á menntun þúsunda barna. 28.000 börn á flótta búa við landamæri Tælands og Mjanmar. Barnaheill – Save the Children í Tælandi vinna nú með samstarfsaðilum sínum að því að meta tjón og þarfir barna, sem líklega felur í sér sálfélagslegan stuðning.
„Starfsfólk Barnaheilla – Save the Children í Mjanmar og samstarfsaðilar okkar á staðnum vinna og búa í mörgum þeirra samfélaga sem verða fyrir áhrifum. Við erum að bregðast við brýnum, lífsbjargandi þörfum barna og fjölskyldna þeirra.” segir Jeremy Stoner, svæðisstjóri Barnaheilla – Save the Children í Asíu.
Barnaheill – Save the Children hafa starfað í Mjanmar síðan 1995 og veitt lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu, mat, næringu og menntun og staðið fyrir barnaverndarverkefnum.
Barnaheill – Save the Children hafa starfað í Tælandi síðan 1979. Barnaheill – Save the Children í Tælandi vinna að því að styðja börn sem verða fyrir mestum áhrifum af mismunun og ójöfnuði í gegnum áætlanir um menntun, barnavernd og lífsviðurværi.
Þú getur stutt starf Barnaheilla – Save the Children með stökum styrk og lagt þannig þitt af mörkum til að hjálpa börnum í neyð.