„Við stöndum frammi fyrir ómögulegum ákvörðunum”

Pistill eftir Tótlu I. Sæmundsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla, um bakslagið sem við stöndum frammi fyrir í mannréttindarmálum í heiminum:
Á myndin hér að ofan er ég stödd í Kúrdistan fyrir örfáum vikum í flóttamannabúðum rétt fyrir utan Duhok, sem er við landamæri Sýrlands. Þar hafa safnast saman 10.000 manns sem hafa þurft að flýja innan eigin landamæra. Ég ætla ekki sérstaklega að rekja hryllingssögu Kúrda en óhætt er að segja þeir hafi verið hraktir frá sínum heimahögum ítrekað af ríkjandi einræðisherrum Íraks og Sýrlands (Írans og Tyrklands), innrásarherjum og hinum ýmsu vígahópum.
Ég vil vekja sérstaka athygli á merkingunum á bak við mig. Búðirnar eru brandaðar út í eitt af Bandaríkjamönnum sem í dag eru allir farnir og fjármagn þeirra með. Sá niðurskurður sem hefur átt sér stað þarna til þróunar- og mannúðaraðstoðar, sem og annars staðar í heiminum á undanförnum mánuðum, hefur gert það að verkum að við stöndum frammi fyrir ómögulegum ákvörðunum.
1 af hverjum 5 börnum í heiminum býr á átakasvæði og hefur fjöldinn tvöfaldast á seinustu 30 árum, á sama tíma og við erum að eyða margfalt meiru í hernað (um 2.4 trilljónir bandaríkja dollara á heimsvísu).
Meginreglan er að öll mannslíf séu metin til jafns, líf allra eru ómetanleg – sama hvaða áskorunum við stöndum frammi fyrir. En samt stöndum við núna frammi fyrir þeim óbærilega veruleika að velja hvaða lífi á að bjarga og hverju ekki. Þetta er vandamál sem við getum ekki eða ættum ekki að sætta okkur við.
Við erum þvinguð til að forgangsraða einni krísu fram yfir aðra, einu samfélagi fram yfir annað eða lífi barna. Við þurfum að stöðva lífsbjargandi verkefni og ganga í burtu frá samfélögum sem við höfum heitið að aðstoða.
Með þessu á ég t.d. við; á að velja meðferð fyrir alvarlega vannærð börn í fátækustu ríkjum heims eða á að veita læknishjálp til nýfæddra barna á stríðssvæðum? Bregðast við jarðskjálftum í Myanmar, eða fjárfesta í loftslagsverkefnum á Madagskar? Þetta er siðferðisleg áskorun sem engin á að standa frammi fyrir.
Það að draga úr þróunar- og mannúðaraðstoð er ekki einungis siðferðisklemma heldur líka heimskuleg ákvörðun til lengri tíma litið. Þegar við hjálpumst ekki að við að útrýma fátækt, óstöðuleika og faröldrum verður heimurinn óöruggari. Það ýtir undir landsflótta, efnahagslegar krísur og átök. Þessi vandamál virða engin landamæri og mun koma niður á okkur öllum fyrr en varir. Fjárfesting í þróunar- og mannúðaraðstoð er ekki góðgerðarstarfsemi, hún er strategísk, kjarnaöryggismál og siðferðileg skylda okkra allra.
Við getum öll gert eitthvað. Við getum hvert og eitt okkar styrkt þróunar- og mannúðarstarf og þrýst á stjórnvöld um að gera slíkt hið sama.
Þegar ég hugsa til baka í nánast vatnslausa tjaldbúðarþorpið í Írak, þar sem heilbrigðisþjónusta og menntun var af skornum skammti, efast ég ekki um að við erum á rangri leið. Við ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að snúa þessari þróun við.