Vopnaðir vígahópar hrakið 120.000 börn á flótta
Á þeim rúmlega 20 dögum sem liðnir eru af árinu 2025 hafa 120.000 börn í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó neyðst til að flýja heimili sín vegna aukinna árása vopnaðra vígahópa. Árásirnar eru umfangsmiklar þar sem vopnum er beitt, kveikt er í húsum og sprengjum kastað. Fjöldi barna hefur tapað lífi en þúsundir komust utan og eru nú fylgdarlaus á vergangi. Mörg barnanna sem nú eru á flótta leggja leið sína til Goma, stærstu borgarinnar, í leit að öruggari lífi. Öryggið er þó vart að finna í Goma því þar búa rúmlega 20.000 börn á götunni við slæmar aðstæður.
,,Þegar ég heimsótti Goma síðastliðið vor var ástandið ekki gott vegna viðvarandi átaka, hungurs og náttúruhamfara og það fer sannarlega ekki batnandi. Börnin sem búa á götunni eru á öllum aldri og ég hitti m.a. ungar stúlkur sem voru sjálfar búnar að eignast barn gegn vilja sínum,” segir Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna Barnaheilla.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa unnið að verkefni til stuðnings götubörnum í Goma síðustu tvö ár með það að markmiði að finna öruggt heimili fyrir börnin og veita þeim tækifæri á að stunda nám.
,,Við vinnum að því að sameina börn fjölskyldum sínum og koma þeim af götunni. Fjöldi barna hefur nú þegar útskrifast úr námi og er að fóta sig í borginni,“ segir Kolbrún.
Átökin í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó hafa staðið yfir í nærri 30 ár og eru um 7 milljón manns á flótta innan landamæra Kongós. Vopnaðir vígahópar hafa víða tekið yfir vegi og hefur reynst erfitt að koma hjálpargögnum til fólks í neyð.