Vinnustofa um börn í viðkvæmri stöðu

Kolbrún Hrund, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum, tók þátt í vinnustofu um börn í viðkvæmri stöðu og hélt þar erindi um hatursorðræðu. Í lok erindis hennar tóku ungmenni úr grunn- og framhaldsskólum þátt í pallborðsumræðum þar sem þau deildu sinni upplifun af hatursorðræðu og þeim aðgerðum sem þau töldu að fullorðna fólkið gæti gripið til í baráttunni við slíkt.

„Það var algjörlega þarft og mjög hollt fyrir okkur fullorðna fólkið að fá hlið ungmennanna og þeirra ráð í þessari baráttu við ofbeldi og hatursorðræðu. Ungmennin voru öll sammála um að fullorðnir geti gert mun betur í að vera góðar fyrirmyndir og einnig bentu þau á mikilvægi þess að fullorðnir taki slaginn og stöðvi fordóma og hatur hvar sem það birtist,” segir Kolbrún Hrund um þá umræðu sem fram fór í pallborðinu.

Með tilkomu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) hefur ríki og Reykjavíkurborg unnið markvisst að því að efla samstarf allra tengiliða sem vinna með börnum og ungmennum í viðkvæmri stöðu. Vinnustofan fór fram í Víkingsheimilinu í Safamýri og var á vegum stýrihóps lögreglunnar, Norðurmiðstöðvar, framhaldsskóla í hverfi Norðurmiðstöðvar (MS, FÁ og Versló), heilsugæslunnar, barnaverndar og íþróttafélaga í hverfinu.

Ásamt erindi Kolbrúnar um hatursorðræðu fóru fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir tölfræði um stöðu barna og ungmenna og verkferla er varða vopnaburð. Í kjölfarið fóru fram umræður í smærri hópum þar sem 150 aðilar úr ólíkum áttum ræddu leiðir til að efla og þróa samvinnu sín á milli vegna barna í viðkvæmri stöðu.