Námskeið fyrir börn á flótta
Listasafn Reykjavíkur og Barnaheill – Save the children á Íslandi hafa gert með sér samstarfssamning um námskeið fyrir börn á flótta. Verkefninu er ætlað að vinna gegn félagslegri einangrun barna og ungmenna sem hafa fengið eða sótt um hæli á Íslandi og skapa styðjandi og öruggt umhverfi þar börnin eru hvött til að tjá sig.
Námskeiðin verða tvö og haldin vikulega í sex vikur. Þar fá börnin tækifæri til að fræðast um Listasafnið, sem er til húsa á þremur stöðum í Reykjavík, og fá kynningu á völdum verkum úr safneigninni. Þátttakendur munu bæði eiga samtal um myndlist og fá tækifæri til að skapa sín eigin verk undir handleiðslu reyndra kennara.
Námskeiðin eru unnin í samstarfi við Getu hjálparsamtök, sem hafa reynslu af bæði listkennslu og af starfi með flóttafólki. Námskeiðin eru kennd á móðurmáli þátttakenda og á íslensku og eru þeim að kostnaðarlausu. Það hefur reynst vel að nýta myndlist og sköpun til að hjálpa börnum og ungmennum að tjá sig um flóknar tilfinningar og erfiðar upplifanir. Fyrirmynd námskeiðsins er erlent rannsóknarverkefni frá árinu 2022 sem nefnist The Art of Belonging. Það var unnið í samstarfi háskólans í Lundi í Svíþjóð og Nottingham háskóla í Bretlandi.