#ÉGLOFA - Hverju lofar þú?

Vitundarvakningin #ÉGLOFA er ákall til fullorðinna í samfélaginu um að leggja sitt af mörkum til að útrýma kynferðisofbeldi gegn börnum á Íslandi. Því miður er staðreyndin sú að alltof mörg börn eru beitt kynferðisofbeldi og alltof fá þeirra segja frá ofbeldinu. 

Við þurfum öll sem eitt að þora að horfast í augu við vandann til að geta fækkað þolendum og fjölgað þeim sem segja frá.

Hvernig tek ég þátt?

Með því að lofa að líta ekki undan, tala upphátt um kynferðisofbeldi, fræðast, hlusta, bregðast við, skipta þér af verðir þú vör/var við óeðlileg samskipti, senda skýr skilaboð til barna um að þau fái stuðning ef þau segja frá og tilkynninga grun um ofbeldi.

Vektu athygli með okkur á samfélagsmiðlum og gefðu litla fingurs loforð til stuðnings baráttunni gegn kynferðisofbeldi.
Taktu ákvörðun um hverju þú vilt lofa börnunum.
Gefðu loforð sem þú getur staðið við.
Þú mátt svo endilega hvetja aðra til að taka þátt líka, því fleiri sem taka þátt því meiri meðvitund um málefnið og fleiri börn upplifa sig örugg.

Nánari leiðbeiningar má finna með því að smella á fyrirsögnina hér ofar.

Lakkaðu nöglina á litla fingri í djúpgrænum lit og gefðu litla fingurs loforð. Birtu mynd á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #ÉGLOFA og botnaðu setningu með þínu loforði um hvernig þú ætlar að standa með börnum og taka afstöðu gegn kynferðisofbeldi.

Markmið #ÉGLOFA

Langtímamarkmið er að fækka tilvikum þar sem börn verða fyrir kynferðisofbeldi og fjölga í hópi þeirra barna sem segja frá.

Skammtímamarkmið er að auka almenna vitneskju um vandann í samfélaginu og fjölga í hópi þeirra sem láta sig málefnið varða.

Með fræðslu, forvörnum og samtali erum við betur í stakk búin til að líta ekki undan, bregðast við og vanda okkur að hlusta.

Ef barn leitar til þín

Ef barn segir þér frá kynferðisofbeldi sem það hefur orðið fyrir geta viðbrögð þín skipt miklu máli.

Haltu ró þinni, ekki sýna of miklar tilfinningar.

Hlustaðu af athygli. Gefðu barninu tíma og næði til að tjá sig. Það er erfitt að segja frá!

Taktu við þeim upplýsingum sem þú þarft en ekki fá öll smáatriði. Það er ekki þitt að rannsaka málið heldur koma því í réttan farveg. ​

Vertu áfram til staðar fyrir barnið, hlýja og stuðningur skiptir miklu máli.

Hvert get ég leitað?

Þú getur tilkynnt ofbeldi til barnaverndar og þú getur einnig hringt þangað og fengið ráðgjöf ef þú ert ekki viss hvort um ofbeldi er að ræða.

Þú getur tilkynnt atvikið til lögreglu. Þú getur hringt í 112 eða farið á 112.is og fengið ráðleggingar í gegnum netspjall. Á vefnum má finna mikið af gagnlegum upplýsingum.

Hægt er að fara á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Fossvogi ef atvik hefur nýlega átt sér stað og barn er 13 ára eða eldra. 12 ára og yngri geta komið á neyðarmóttökuna í gegnum barnavernd.

Á vefnum stoppofbeldi.is má finna verklag og leiðbeiningar sem gott er að styðjast við.

Hvað er hægt að gera?

Sækja fræðslu, þekkja rauðu ljósin, réttu viðbrögðin og helstu úrræðin.

Hlusta á börnin og kenna þeim að það sé í lagi að segja frá ef eitthvað óþægilegt gerist.

Ræða reglulega um öryggi, persónuleg mörk og hvaða hegðun sé ekki ásættanleg.

Fylgjast með samskiptum, bæði í raunheimum og á netinu til að tryggja öryggi barna og ungmenna.

Taka öllum ábendingum frá börnum alvarlega - jafnvel þó þær virðist smávægilegar.

staðreyndir

Fjöldi barna

Á Íslandi verður fjöldi barna fyrir kynferðisofbeldi á hverju ári, hvort sem er af hendi jafnaldra eða fullorðinna.

Innan við helmingur

Innan við helmingur þeirra barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og eru nú að klára grunnskóla hafa sagt einhverjum frá ofbeldinu. *

700 börn

Árið 2024 sögðu um 700 börn í 8. til 10. bekk að annar unglingur hefði haft við þau samfarir eða munnmök gegn vilja þeirra. *

250 börn

Um 250 börn í 8. - 10. bekk sögðu einnig að einhver fullorðinn, a.m.k. fimm árum eldri, hefði haft samfarir eða munnmök gegn vilja þeirra.*

50% stelpna

Yfir 50% stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda af sér nektarmyndir og yfir 50% fengið óumbeðið klámfengið efni sent til sín. *

126 tilkynningar

Tilkynningar til lögreglu vegna kynferðisbrota gegn börnum voru 126 á árinu 2024 og tilkynningar um barnaníð 40.

52,1% á barnsaldri

Samkvæmt ársskýrslu Stígamóta 2023 (ekki búið að birta 2024) má sjá að af öllum þeim sem leituðu til Stígamóta það ár voru 52,1% á barnsaldri þegar ofbeldið átti sér stað og 27,4% undir 10 ára.

Verkefnið #ÉGLOFA er einn hluti af verkefninu Heillabraut sem er á vegum Barnaheilla og snýst um forvarnir og viðbrögð við kynferðisofbeldi gegn börnum. Heillabraut er afrakstur af evrópska samstarfsverkefninu CSAPE (Child Sexual Abuse Prevention and Education) sem Barnaheill var þátttakandi í 2022-2024.