forvarnaverkefni gegn einelti

Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1. – 4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. En þar sem hinir fullorðnu eru mikilvægar fyrirmyndir í lífi barna eru einnig verkefni fyrir foreldra í námsefninu. Efnið er danskt að uppruna og heitir á frummálinu Fri for Mobberi. Það er þýtt, staðfært og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. 

Vinátta þjálfar félagsfærni og samskipti og stuðlar að góðum skólabrag. 


Markmið vináttu eru:

Skapa menningu þar sem öll börn tilheyra hópnum óháð útliti, skoðunum, styrkleikum eða veikleikum þeirra.

Efla félagsanda sem byggir á virðingu, fjölbreytileika, hugrekki og umhyggju.

Að gildi Vináttu verði hluti af öllu skólastarfi og samfélaginu öllu.

Starfsfólk skóla og foreldrar séu alltaf góðar fyrirmyndir barna sinna og hafi jákvæð áhrif á félagsanda barnanna.

Helsta markmiðið er að skapa umhverfi þar sem einelti nær ekki að þrífast.

Gildi vináttu

VIRÐING

Vera góður félagi, hlusta á aðra og taka tillit til annarra. Berum virðingu fyrir öðrum, umhverfinu og okkur sjálfum.

UMHYGGJA

Sýnum samkennd og hjálpum þeim sem eru í vanda eða líður illa. Bjóðum félögum okkar með í leik.

HUGREKKI

Hugrakkur félagi bregst við óréttlæti og þorir að segja frá eða stoppa þann sem er að meiða eða stríða. Hugrekki er líka að setja sér mörk og virða mörk annarra.

FJÖLBREYTILEIKI

Berum virðingu hvert fyrir öðru og tökum tillit til þess að innan hópsins eru margir ólíkir einstaklingar með ólíkar skoðanir og viðhorf.

Vináttu fræðsla í boði

Námskeið fyrir kennara í leik- og grunnskóla

Námskeiðið er 2 klst.

    Bakgrunnur Vináttu
    Hugmyndafræði og gildi
    Skilgreining eineltis
    Birtingarmynd eineltis
    Afleiðingar eineltis
    Ábyrgð hinna fullorðnu
    Námsefnið
    Virk þátttaka í vinnu með námsefnið

Fyrirlestur fyrir foreldra


    Fyrirlesturinn er klukkustund

    Hugmyndafræði og gildi Vináttu
    Hvað er einelti
    Afleiðingar eineltis
    Hvert er hlutverk foreldra
    Börn og stafrænn heimur
    Tilkynningaskylda almennings

HVAÐ ER EINELTI?

Einelti er þegar hópur einstaklinga reynir að útiloka einn eða fleiri úr hópnum með ýmsum hætti. Einelti á sér margar birtingamyndir. Það er endurtekin athöfn eða hegðun til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.  

AFLEIÐINGAR EINELTIS

    Reiði
    Einmanaleiki
    Verkir í kviði og höfði
    Skömm og sektarkennd
    Lágt sjálfsmat
    Vanlíðan og streita
    Óöryggi og kvíði
    Sjálfsskaði

VIÐBRÖGÐ VIÐ EINELTI

Vinátta er fyrst og fremst forvarnarverkefni ekki viðbragðsáætlun, en slíkar áætlanir ættu að vera til í öllum leik- og grunnskólum.

    Í Vináttu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, samkennd, umhyggju, vináttu og vellíðan. Vinátta nýtist þannig í því hlutverki skóla að stuðla að almennri menntun barna með áherslu á félags- og tilfinningaþroska og hæfni þeirra til að takast á við áskoranir daglegs lífs.

verkefnastýra vináttu

Ída Björg Unnarsdóttir stýrir Vináttu. Hún er grunnskólakennari að mennt með M.ed gráðu í menntunfræðum ungra barna. Ída Björg hefur margra ára reynslu úr skólakerfinu, í leik- og grunnskólum bæði sem kennari og stjórnandi.

Fyrir skráningu á námskeið og frekari upplýsingar um Vináttu má hafa samband á barnaheill@barnaheill.is eða Ida@barnaheill.is