dagur mannréttinda barna árið 2024
Tileinkaður börnum sem hafa þurft að yfirgefa heimili sitt
Í tengslum við daginn höfum við hjá Barnaheillum útbúið stutt myndband þar sem rætt er við börn frá Grindavík, Úkraínu og Palestínu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Auk þeirra er rætt við sérfræðing í fjölmenningarmálum.
Markmiðið með myndbandinu er að vekja athygli á því áfalli sem það er að missa heimili sitt og mikilvægi þess að hlúa vel að þessum hópi barna.
Hvernig myndi þér líða ef þú þyrftir að yfirgefa heimilið þitt í flýti?
Myndbandinu er ætlað að gefa okkur innsýn í hvernig börnunum líður, hvers þau sakna og hverjir framtíðardraumar þeirra eru. Myndbandið er sent á alla grunn- og framhaldsskóla landsins og fylgir því verkefni sem er ætlað að fá börnin til að íhuga stöðu og réttindi þessara barna og setja sig í spor þeirra.
Öll getum við gert eitthvað, en hvað þarf að gera betur?
Um dag mannréttinda barna
Dagur mannréttinda barna er haldinn 20. nóvember ár hvert og er hann helgaður vitundarvakningu og fræðslu um Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og þau réttindi sem öll börn eiga að njóta.
Upphaf Barnasáttmálans
Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindarsamningur heims og Barnaheill eru stolt af því að Eglantyne Jebb, stofnandi alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, er upphafs manneskja Barnasáttmálans. Við lok fyrri heimstyrjaldarinnar setti hún fram þá hugmyndafræði að börn eru einstaklingar, ekki eignir fullorðinna, og eigi því skilið að njóta eigin grundvallarréttinda.
Með þessa hugmyndafræði í farteskinu samdi hún hina sögulegu Genfaryfirlýsingu um réttindi barna og hvatti Þjóðabandalagið, sem nú eru Sameinuðu þjóðirnar, til að útbúa sáttmála fyrir börn til að tryggja réttindi þeirra um vernd og umönnun.
Réttindi barna viðurkennd
Þann 26. September 1924 samþykkti Þjóðabandalagið yfirlýsingu Eglantyne og var þá í fyrsta sinn opinberlega lýst yfir að börn ættu sín eigin réttindi. Þar komu grundvallar mannréttindi barna um rétt til menntunnar, verndar á neyðartímum, fæðu og öryggis gegn misnotkun skýrt fram. Yfirlýsing Eglantyne breytti lífi kynslóða barna og markaði upphaf framfara því seinna meir varð hún upphafið af Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna.
Barnasmáttmálinn var samþykktur á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og liggur því beinast við að dagurinn sé helgaður honum. Á Íslandi var Barnasmáttmálinn undirritaður á Alþingi árið 1990 og svo lögfestur á Alþingi árið 2013. Með aðild að Barnasáttmálanum skuldabindir Íslands sig til að grípa til allra nauðsynlegra og viðeigandi ráðstafana til að innleiða hann að fullu á öllum sviðum samfélagsins.
Saga Barnaheilla samofin Barnasáttmálanum
Margt hefur áunnist í í málefnum barna frá því sáttmálinn var samþykktur en ennþá eru þó fjölmargar áskoranir í réttindarbaráttunni og því alltaf nauðsynlegt að standa sterkan vörð um mannúð og sjálfsögð mannréttindi barna. Að standa vörð um réttindi barna er saga Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, saga fortíðar, saga nútíðar og saga framtíðar. Í ljósi þeirrar sögu var Barnaheillum falið af Mennta- og barnamálaráðuneytinu að sjá um framkvæmd dagsins.