Réttindi barna varða okkur öll

Í dag, fimmtudaginn 2. maí, hefst hin árlega Vorsöfnun Barnaheilla með sölu á lyklakippum sem eru hannaðar og framleiddar af handverksfólki í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne. Allur ágóði sölunnar rennur til verkefna Barnaheilla sem snúa að vernd gegn ofbeldi á börnum.

Söfnunin stendur yfir í fimm daga frá deginum í dag og til og með mánudagsins 6. maí. Hægt er að kaupa lyklakippurnar um land allt hjá sölufólki og einnig hér inni á heimasíðu okkar Barnaheill.is. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fékk afhenta fyrstu lyklakippu söfnunarinnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrr í vikunni. Hann hefur verið verndari Vináttu frá árinu 2017 sem er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti. Guðni sagði það heiður að geta lagt hönd á plóg sem verndari barna. Hann þakkaði kærlega fyrir lyklakippuna og sagði hana henta einstaklega vel núna því hann vantaði lykklakippu fyrir lykilinn að nýja húsinu!

Eins og fyrr segir eru lyklakippurnar sem seldar eru í ár hannaðar og framleiddar af handverksfólki í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne í samstarfi við Aurora velgerðarsjóð. Átján einstaklingar handgerðu lyklakippurnar og fengu þau laun sem samsvaraði árslaunum fyrir vinnu sína sem tók um 4 mánuði. Með framleiðslunni leggja Barnaheill áherslu á sjálfbærni, atvinnusköpun, jafnréttismál og umhverfismál.

Með kaupum á lyklakippunni er því ekki eingöngu stutt við vernd gegn ofbeldi á börnum á Íslandi heldur er einnig verið að valdefla og styðja við einstaklinga sem búa við kröpp kjör í Síerra Leóne og þeim gefinn kostur á að byggja upp líf sitt.

„Við hjá Barnaheillum komum víða við í starfi okkar. Við höldum úti fræðslu og forvörnum, bregðumst við mannúðarkrísum, veitum neyðaraðstoð og leggjum ríka áherslu á að raddir barna heyrist og réttindi þeirra séu virt. Við teljum að með því að tryggja velferð barna aukist líkur á velfarnaði þeirra síðar á lífsleiðinni,” segir Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.

Takið vel á móti sölufólki Barnaheilla næstu daga.

Þinn stuðningur skiptir máli!