Fræðsla um kynheilbrigði barna

Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er alvarlegt, alþjóðlegt vandamál og eru vitundarvakning, fræðsla og forvarnir afar mikilvæg tæki í baráttunni gegn því. Til að bregðast við þessu hafa Barnaheill í samvinnu við fjórar Evrópuþjóðir unnið að því frá árinu 2022 að þróa fræðslu- og forvarnarefni um kynheilbrigði barna.

Markmiðið er að efla forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum og snýr einn þáttur verkefnisins að því að hjálpa 5-11 ára börnum að öðlast skilning, færni og þekkingu á líkama sínum, tilfinningum, mörkum og samþykki með fræðslu. 

Með fræðslu og opinni umræðu um kynferðisofbeldi verðum við sem samfélag betur í stakk búin til að efla börn og fullorðna til að takast á við vandann” segir Gréta María Bergsdóttir, verkefnastjóri CSAPE.

Eftir farsælt samstarf Íslands, Finnlands, Grikklands, Albaníu og Bosníu-Hersegóvínu er fræðsluefni okkar tilbúið. Í þessari viku fórum við af stað í grunnskólum landsins með fræðslu um kynheilbrigði barna byggt á þessu glænýja efni sem er sprottið upp úr samstarfi þessara ólíku þjóða.

„Með sameiginlegu átaki, byggt á reynslu og þekkingu ólíkra þjóða og sérfræðinga, viljum við leggja okkar af mörkum til að auka meðvitund fólks og styrkja forvarnir gegn kynferðisofbeldi á börnum," segir Gréta.

Efnið var þróað í tengslum við CSAPE (Child Sexual Abuse Prevention and Education) 2022–2024, fjármagnað af Evrópusambandinu; European Internal Security Fund (ISF).