Árleg viðurkenning Barnaheilla
Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla
viðurkenningarhafar fyrri ára
árið 2023
Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, hlaut viðurkenninguna
Vilborg hefur um áratuga skeið barist fyrir hagsmunum barna sem búa við fátækt og er rödd hennar sterk í samfélaginu þegar kemur að því að tala fyrir málefninu. Vilborg hefur með störfum sínum aflað sér mikillar virðingar og er þekkt fyrir fagleg vinnubrögð. Hún nálgast börn og fjölskyldur þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu af mikilli virðingu. Það er ljóst að barátta hennar fyrir bættum hag þeirra sem búa við fátækt er henni hjartans mál og nær langt út fyrir að vera eingöngu starf hennar. Vilborg kom að stofnun Systkinasmiðjunnar á Íslandi en þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að viðurkenna og vekja athygli á því mikilvæga hlutverki sem systkini barna með sérþarfir hafa í fjölskyldum og í samfélaginu. Þar er einnig skapaður vettvangur fyrir þau að fá upplýsingar og úrræði sem þau þurfa til að styðja við fjölskyldur sínar og sig sjálf. Þau fá tækifæri til að hitta önnur systkini í skipulögðu og skemmtilegu umhverfi, ræða við jafnaldra sína á jákvæðan hátt um margt sem tengist því að eiga systkini með sérþarfir.
árið 2022
Össur Geirsson, skólastjóri Skólahljómsveitar Kópavogs hlaut viðurkenninguna
Össur hefur í störfum sínum veitt miklum fjölda barna og ungmenna innblástur og hvatningu. Hann hefur óbilandi trú á ungu fólki og hefur einstakt lag á að laða fram það besta í hverju og einu barni. Hann leggur áherslu á samvinnu á meðal nemenda í störfum sínum og kallar fram jákvæðan aga, metnað og samkennd.
árið 2021
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hlaut viðurkenninguna
Ásmundur Einar hefur í embætti félags- og barnamálaráðherra sett málefni barna í fyrsta sæti svo um munar. Hann lagði fram fjögur frumvörp auk þingsályktunartillögu í málefnum barna fyrr á þessu ári sem samþykkt voru á Alþingi sem hafa þau í för með sér gjörbyltingu í málefnum barna og ungmenna. Börnin eru í brennidepli og öll þjónusta og kerfin í kringum börnin mun vera samþætt og öllum hindrunum rutt úr vegi. Samhliða þessum stóru breytingum hafa ýmis verkfæri verið þróuð til að styðja við þessa nýju nálgun og hugsun í málefnum barna
árið 2020
Guðmundur Fylkisson lögreglumaður hlaut viðurkenninguna
Guðmundur leggur sig fram um að nálgast ungmenni af virðingu og nærgætni til að auka ekki á vanlíðan þeirra og skaða. Þrátt fyrir að hann starfi fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar hann við leit að börnum alls staðar af landinu. Guðmundur leggur sig fram um að varast staðalímyndir því börnin sem hann leitar að eru á ýmsum aldri og með mismunandi bakgrunn og bakland þeirra missterkt.
árið 2019
Réttindaráð Hagaskóla hlaut viðurkenninguna
Réttindaráðið barðist ötullega fyrir réttindum skólasystur sinnar Zainab Safari. Réttindaráðið mótmælti harðlega áformum stjórnvalda að senda Zainab og fjölskyldu hennar úr landi með vísan í Barnasáttmálann og með áskorun til stjórnvalda að taka mið af Barnasáttmálanum við ákvarðanir sínar um mál Zainab. Eftir mikinn þrýsting frá almenningi sem hrundið var af stað má segja af Réttindaráði Hagaskóla, lét dómsmálaráðherra breyta reglugerð um útlendinga sem gerði það að verkum að útlendingastofnun var gert kleift að veita Zainab og fjölskyldu hennar efnislega meðferð á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi.