Leiðbeinandi reglur um framkomu við börn, öryggi barna og velferð 

í tengslum við viðburði sem Barnaheill – Save the Children á Íslandi standa fyrir

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Starfsfólk Barnaheilla skal koma fram við börn af virðingu, kurteisi og hlýju.

Við undirbúning samtakanna og við framkvæmd hvers konar viðburða sem varða börn með einum eða öðrum hætti skal sjónarmiðið um það sem barni er fyrir bestu vera í forgrunni við allar ákvarðanir.

Við viðburði þá sem samtökin standa fyrir og tengjast börnum á einhvern hátt, svo sem með þátttöku þeirra, skulu samtökin tryggja ítrasta öryggi barna með því að gæta fyllstu varúðar og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu eftir bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma.

Starfsfólk Barnaheilla skal leitast við að fá leyfi barna til myndatöku á viðburðum. Á viðburðum eða fyrir viðburði skal upplýsa að myndir sem teknar eru muni hugsanlega verða notaðar til kynningar á samtökunum eða verkefnum þeirra. Börnum og foreldrum skal gefast kostur á að synja um notkun mynda af þeim.

Mikilvægt er að starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi og aðrir sem eru í sambandi við börn fyrir hönd samtakanna:

  • Séu á verði gagnvart áhættu, skipuleggi vinnustað, umhverfi og vinnutilhögun til að draga úr áhættu.
  • Séu sýnilegir þegar þeir vinna með börnum.
  • Tryggi að samskipti séu opin svo að hægt sé að ræða og bregðast við málum sem upp koma.
  • Átti sig á ábyrgð sinni svo að tekið sé á og brugðist við slæmum vinnubrögðum og hugsanlegri misbeitingu eða óviðeigandi hegðun starfsfólks eða annarra sem tengjast samtökunum.
  • Tali við börn um tengsl þeirra við starfsfólk eða aðra og hvetji þau til að ræða hvers kyns áhyggjur sínar.
  • Valdefli börn – ræði við þau um réttindi þeirra, hvað er viðeigandi og óviðeigandi og hvað þau geti gert ef vandamál rís.

Almennt er óviðeigandi að starfsmenn samtakanna eða aðrir á þeirra vegum séu einir með barni sem aðeins tengist þeim í gegnum starf þeirra eða samtakanna.

Reykjavík 6. febrúar 2015

Uppfært 8. desember 2015