Ein jörð fyrir öll börn – um ókomna tíð

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru mannréttindasamtök sem vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem leiðarljós í öllu starfi. Samtökin vilja að tryggt sé að öll heimsins börn í nútíð og framtíð njóti þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt sáttmálanum. Mikilvægt er að stuðla að jafnrétti milli heimshluta sem og kynslóða, sem tryggir að komandi kynslóðir geti notið réttinda sinna, búið við öryggi og vernd og uppfyllt þarfir sínar, ekki síður en núlifandi kynslóðir.

Markmið sjálfbærnistefnu samtakanna er að lágmarka það vistspor sem samtökin marka og þannig hámarka þann arð sem samtökin skila til barna í nútíð og framtíð. Barnaheill vilja jafnframt vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja rétt barna í nútíð og framtíð til heilnæms umhverfis og hafa sett það sem markmið í stefnu samtakanna og sjálfbærnistefnu. Í allri ákvarðanatöku og við framkvæmdir, rekstur, innkaup og aðra starfsemi á vegum Barnaheilla skal leitast við að neikvæð áhrif á fólk, aðrar lífverur, umhverfi og náttúru séu í lágmarki.

Tilgangur sjálfbærnistefnunnar er að tryggja að sjálfbær þróun sé höfð að leiðarljósi í allri starfsemi Barnaheilla. Stefnan er samofin tilgangi samtakanna sem vinna í þágu barna með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Til að jörðin verði áfram byggileg, þarf að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti, minnka sóun, vinna gegn loftslagsbreytingum, vernda vistkerfi, vinna að jöfnuði í heiminum, gæta jafnræðis og uppræta fátækt. Jafnframt þarf að stunda lýðræðisleg vinnubrögð, efla þátttöku barna og ungmenna og taka mið af fjölbreytileika samfélaga. Þar sem áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta, ekki síst hjá fátækari þjóðum heims, þarf að huga að mótvægisaðgerðum og aðlögun að breyttum heimi. Það er gert með því að auka seiglu samfélaga og loftslagsvænni þróun.

Ein jörð fyrir öll börn – um ókomna tíð, sjálfbærnistefna Barnaheilla byggir á alþjóðlegum samþykktum, svo sem heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og reglugerðum. Stefnan er samþætt öðrum stefnum samtakanna, öllum verkefnum samtakanna og er liður í daglegu starfi. Hvert verkefni samtakanna er þannig unnið í anda sjálfbærrar þróunar þar sem hugað er að umhverfisþáttum, félagslegri velferð og hagrænum þáttum. Við framkvæmd stefnunnar er einnig leitast við að hafa jafnræði allra og jafnrétti að leiðarljósi.

Með sjálfbærnistefnunni vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi vera öðrum samtökum fyrirmynd og hvatning til að vinna að sjálfbærri þróun, til umhverfisvænna lífshátta og til að sýna samfélagslega ábyrgð, núlifandi og komandi kynslóðum til heilla. Þannig verður jörðin okkar fyrir öll börn um ókomna tíð.

Hér á eftir er nánari lýsing á undirmarkmiðum stefnunnar:

Úrgangur, orka, nýtniogsóun 

  • Leggja skal áherslu á vistvæn innkaup á vörum og þjónustu, framkvæmdum og framleiðslu.
  • Draga skal úr hvers kyns sóun auðlinda og verðmæta, myndun úrgangs og stuðlað er að endurnýtingu og endurvinnslu með góðri nýtingu hráefna og flokkun.

Samgöngur

  • Stuðlað er að notkun vistvænna samgangna og dregið úr óþarfa ferðum.

Fræðsla

  • Þekking og vitund um umhverfismál og umhverfisvæna lífshætti og samfélagslega ábyrgð er efld með fræðslu til starfsmanna, félagsmanna, annarra samtaka og almennings.
  • Barnaheill leggja áherslu á að í allri stefnu stjórnvalda, ákvörðunum, áætlunum og framkvæmd sé réttur barna til heilnæms umhverfis og náttúru tryggður. Stjórnvöld hafi sjálfbæra þróun að leiðarljósi við allar ákvarðanir og framkvæmd og standi vörð um réttindi barna við umskipti vegna loftslagsbreytinga og börnum þannig tryggð bestu mögulegu skilyrði til lífs og þroska án mismununar og að kerfi samfélagsins fylgi samfélagslegri þróun.

Umhverfi

  • Í allri starfsemi samtakanna er lögð áhersla á að áhrif á umhverfi og náttúru sé sem minnst. Lögð er áhersla á virðingu og góða umgengni um auðlindir, óraskaða náttúru og lífríki.

Mótvægisaðgerðir

Barnaheill–Save the Children hafa hafið skráningu á kolefnisnotkun samtakanna á heimsvísu. 

  • Barnaheill – Save the Children á Íslandi kolefnisjafna starf samtakanna eins og kostur er á s.s. með endurheimt vistkerfa og gróðursetningu.
  • Í öllum verkefnum innanlands sem og á alþjóðavísu er ávallt hugað að mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga auk fyrirbyggjandi aðgerða.

Sjálfbærnistefna þessi var fyrst samþykkt á stjórnarfundi Barnaheilla 2. maí 2017.