Sigurgeir safnaði 677.500 fyrir börn á Gaza

Sjósundkappinn Sigurgeir Svanbergsson lagði af stað 27. júlí síðastliðinn í sjósundsferð frá Akranesi og stefndi á að synda um 17 kílómetra leið yfir til Reykjavíkur til styrktar Barnaheillum, en allt safnað fé rann til stuðnings börnum sem búa á Gaza. Sigurgeir þurfti því miður að hætta sundi á miðri leið vegna veðurs en var strax staðráðinn í að klára sundið og ljúka áheitasöfnun sinni.
Sigurgeir lagði því aftur af stað 28. ágúst síðastliðinn en vegna veðurs og vinda þurfti hann að breyta leiðinni, en tókst að lokum að klára sundið.
„Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta sund,” sagði hann hlæjandi eftir afrekið. “Við þurftu að breyta leiðinni helling útaf miklum mótvindi. Ég endaði á að labba Viðey endilanga til að geta synt þaðan yfir í geldingarnes. Þetta var því einskonar tvíþraut á endanum.”
Eins og fyrr segir var markmið Sigurgeirs með sundinu að safna fé til styrktar börnum á Gaza og söfnuðust 677.500 krónur, sem renna í neyðarsjóð Barnaheilla fyrir börn sem búa á Gaza.
Barnaheill þakka öllum fyrir þeirra fjárframlag í neyðarsöfnunina og þakka Sigurgeiri kærlega fyrir stuðninginn og elju sína að láta mótvindinn ekki stoppa sig.