Réttindaráð Hagaskóla hlaut í dag viðurkenningu Barnaheilla 2019
Réttindaráð Hagaskóla hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2019 fyrir ötullega baráttu fyrir réttindum skólasystur sinnar Zainab Safari. Réttindaráðið mótmælti harðlega áformum stjórnvalda að senda Zainab og fjölskyldu hennar úr landi með vísan í Barnasáttmálann og með áskorun til stjórnvalda að taka mið af Barnasáttmálanum við ákvarðanir sínar um mál Zainab. Eftir mikinn þrýsting frá almenningi sem hrundið var af stað má segja af Réttindaráði Hagaskóla, lét dómsmálaráðherra breyta reglugerð um útlendinga sem gerði það að verkum að útlendingastofnun var gert kleift að veita Zainab og fjölskyldu hennar efnislega meðferð á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn sem er 30 ára í ár er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.
Afhending viðurkenningarinnar fór fram í veislusal veitingastaðarins Nauthóls. Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnt hver hlyti viðurkenninguna. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Hljómsveit úr Skrekksatriði Hagaskóla flutti lagið „Eftir 13000 mistök“ eftir Theu Snæfríði Kristjánsdóttur. Aníta Sóley Þórðardóttir talaði fyrir hönd ungmennaráðs Barnaheilla. Guðmundur Steingrímsson stjórnarmaður í stjórn Barnaheilla stýrði athöfninni.