Reglur um meðferð fjármuna Barnaheilla – Save the Children á Íslandi
Almennt
Framkvæmdastjóri hefur prókúru á reikninga samtakanna og ráðstafar fjármunum samkvæmt ákvörðun stjórnar og fjárhagsáætlun hverju sinni.
Meðferð innlagðra reikninga
Móttökuritari/gjaldkeri annast greiðslur samþykktra reikninga og hefur prókúru á útgjaldareikninga vegna þeirra. Starfsmaður sem hefur umsjón með verki samþykkir reikninga sem berast áður en þeir eru greiddir en allir reikningar skulu auk þess samþykktir af framkvæmdastjóra. Bókari færir alla reikninga og stemmir af bókhald samtakanna. Starfsfólk Barnaheilla er meðvitað um að það vinnur með almannafé og gætir ráðdeildar í hvívetna. Úttektir í reikning í verslunum skulu undirritaðar og kvittunum með kennitölu skilað til framkvæmdastjóra eða gjaldkera, einnig kvittunum fyrir kaup með greiðslukorti samtakanna. Vísað er í reglur um ferðir erlendis vegna kostnaðar sem af þeim hlýst.
Útgefnir reikningar
Allir útgefnir reikningar frá Barnaheillum skulu vera númeraðir og gefnir út skv. lögum um gerð reikninga. Auk þess þarf að koma fram nafn þess sem samþykkti útgjöldin.
Ávöxtun fjár
Fé Barnaheilla skal ávaxtað samkvæmt stefnu um ávöxtun með lágmarksáhættu. Ekki er fjárfest í hlutabréfum fyrirtækja með varning eða stefnu sem er andstæðu því sem Barnaheill standa fyrir s.s. á sviði mannréttinda og umhverfismála.
Endurskoðun reikninga og reikningsskil
Meðferð fjármuna Barnaheilla er samkvæmt viðurkenndum bókhalds- og reikningsskilavenjum og endurskoðun reikninga í höndum löggiltra aðila. Upplýsingar um tekjur stofnunarinnar og ráðstöfun á þeim eru gegnsæjar, settar fram á einfaldan og skýran máta meðal annars í ársskýrslu.
Fjáröflun
Barnaheill afla ekki fjár með vafasömum hætti og taka ekki við styrkjum frá einstaklingum eða starfsemi sem vinnur gegn markmiðum samtakanna og vísa þar í reglur alþjóðasamtaka Save the Children um fjáröflun. Ávallt er skýrt til hvaða málefnis fjár er aflað og uppgjör eftir safnanir eru aðgengileg þeim sem óska að kynna sér þær. Aldrei skal gefið í skyn að safnanir eða önnur fjáröflun kosti ekkert. Tilskilin leyfi fyrir söfnunum eru fengin. Lögum og reglum þar að lútandi er fylgt. Þegar utanaðkomandi aðili selur varning eða þjónustu til fjáröflunar eða stuðnings við Barnaheill s.s. aðgang að tónleikum, skal ávallt ljóst í krónum talið, hve stór hluti af söluverði rennur til Barnaheilla.
Gjafir og gjafafé
Barnaheill taka við gjöfum og framlögum til verkefna samkvæmt markmiðum sínum verði kostnaður af þeim ekki umfram það sem eðlilegt má teljast í hlutfalli við verðmæti gjafar. Leitast skal við, eftir föngum, að beina gjöfum og framlögum í þann farveg sem gefendur óska, komi þær fram, og upplýst um það strax sé það ekki mögulegt.
Brot á reglum
Leiki grunur á broti á þessum reglum skal það tilkynnt í það minnsta tveimur stjórnarmönnum og rannsakað.
Samþykkt á fundir stjórnar Barnaheilla 6. mars 2018