Almenn viðmið um opinbera umfjöllun um börn

Hvað ber að hafa í huga og hvað ber að varast þegar fjallað er um börn og málefni barna í fjölmiðlum? Hvernig má tryggja að gætt sé að öryggi barna og velferð þegar um þau er fjallað eða þegar börn taka sjálf þátt í almennri umfjöllun?

Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóli, SAFT, Umboðsmaður barna og Unicef hafa tekið höndum saman um gerð almennra viðmiða vegna opinberrar umfjöllunar um börn. Viðmiðunum er ætlað að styrkja fjölmiðla í að þjóna almannahlutverki sínu með réttindi barna að leiðarljósi, tryggja vandaða og uppbyggilega umfjöllun um málefni barna í fjölmiðlum, ásamt því að stuðla að þátttöku barna í samfélagsumræðu.

Hér er að finna viðmið sem geta nýst fjölmiðlum og öðrum þegar þeir fjalla opinberlega um málefni sem snúa að börnum eða tengjast börnum á einhvern hátt. Þeim er meðal annars ætlað að styðja fjölmiðla í að þjóna almannahlutverki sínu, án þess að skerða réttindi barna með umfjölluninni.

Börn hafa rétt til að tjá sig um málefni sem varða þau og ber að árétta að þessum viðmiðum er ekki ætlað að takmarka tjáningarfrelsi barna á nokkurn hátt. Þeim er fyrst og fremst ætlað að stuðla að því að öryggi þeirra og velferð sé gætt í hvívetna þegar um þau er fjallað eða þegar börn taka sjálf þátt í almennri umfjöllun. Mikilvægt er að tryggja vandaða og uppbyggilega umfjöllun um málefni barna í fjölmiðlum, ásamt því að stuðla að þátttöku þeirra í samfélagsumræðu.

Almenn viðmið

1. Við alla umfjöllun sem varðar börn ber að tryggja að mannréttindi þeirra séu virt og hagur þeirra sé hafður að leiðarljósi.

2. Í umfjöllun um barn ber að gæta sérstakrar varkárni og tryggja að komið sé fram við það af virðingu og tekið tillit til þroska þess, aldurs og stöðu að öðru leyti.

3. Áður en umfjöllun er birt skal meta hvaða áhrif hún getur haft fyrir barnið og tryggja að hagsmunir þess séu hafðir að leiðarljósi. Þrátt fyrir að umfjöllun varði ekki beinlínis barnið sjálft, heldur aðra sem því tengjast, skal meta áhrif birtingarinnar á líðan, orðspor og hagsmuni barnsins, óháð samþykki forsjáraðila.

Dæmi
• Viðtal við foreldri um erfiðleika innan fjölskyldunnar, t.d. hegðunar- eða heilsufarsvanda barnsins.

4. Ef umfjöllun getur talist viðkvæm eða meiðandi fyrir barn skal ganga úr skugga um að ekkert komi fram í henni sem væri hægt að rekja til barnsins eða fjölskyldu þess. Þetta á sérstaklega við þegar grunur er um að barn hafi brotið af sér eða brotið hafi verið gegn því.

Dæmi
• Viðtal við foreldri undir nafni og mynd um afbrot framin gegn barni eða af hálfu barns. 
• Umfjöllun um dóm um kynferðisbrot gegn barni, þar sem finna má svo nákvæmar lýsingar á aðstæðum að auðvelt gæti verið að rekja það til viðkomandi barns.

5. Forðast skal að birta umfjöllun, mynd eða myndband sem gæti haft meiðandi eða niðurbrjótandi áhrif á barn, niðurlægt eða komið óorði á það, jafnvel þótt persónueinkennum sé breytt eða mynd sé skyggð. Á það við hvort sem umfjöllun varðar einstaka barn, hóp barna eða börn almennt.

Dæmi
• Myndband birt á vef fjölmiðils, þar sem barn sést brjóta af sér, en andlit barnsins hefur verið skyggt.

6. Þegar höfð eru samskipti við barn er mikilvægt að það viti að það sé að tala við fulltrúa fjölmiðils og að tilgangur viðtalsins/umfjöllunarinnar sé útskýrður fyrir barninu.

7. Ávallt skal tryggja að barn samþykki viðtal/myndbirtingu/nafnbirtingu eða aðra umfjöllun sem varðar það beint. Einnig skal meta í hverju tilviki fyrir sig hvort samþykki forsjáraðila sé nauðsynlegt út frá aldri og þroska barns og út frá umfjöllunarefninu. Sérstaklega er mikilvægt að gæta varkárni þegar um viðkvæm málefni er að ræða og hafa í huga að þrátt fyrir að samþykki barns og forsjáraðila séu fyrir hendi þarf að meta hverju sinni hvort umfjöllunin þjóni hagsmunum barnsins.

Dæmi
• 12 ára barn vill koma í viðtal og segja frá starfi nemendafélagsins í skólanum. Í slíku tilviki er ekki endilega þörf á samþykki forsjáraðila. 
• 15 ára barn vill koma í viðtal og segja frá erfiðri lífsreynslu sem það hefur orðið fyrir. Í slíku tilviki er gott að fá sam- þykki forsjáraðila en jafnvel þótt samþykki liggi fyrir skal ekki taka viðtalið ef talið er að það geti haft skaðleg áhrif á barnið til lengri tíma litið.

8. Ef tekið er viðtal við barn skal gæta þess að öryggi þess og velferð sé ekki ógnað með viðtalinu, það niðurlægt, haft að aðhlátursefni eða beðið um að rifja upp áföll eða atburði sem gætu valdið því sársauka eða sorg. Það sama á við þegar barn er fengið til að koma fram í fjölmiðli af öðru tilefni, t.d. í hæfileika- og skemmtiþáttum.

9. Varast skal að stimpla eða jaðarsetja börn og ekki birta umfjöllun sem elur á fordómum eða stuðlar að neikvæðum viðhorfum gagnvart ákveðnu barni, hópi barna eða börnum almennt.

Dæmi
• Varast skal að alhæfa um hóp barna og varpa ábyrgð á samfélagslegum vandamálum á börn, sbr. fyrirsagnir á borð við „70 nemendur til vandræða í 10. bekk “ eða „Mikilvægt að útrýma offitu barna.“

10. Brýnt er að tilkynningaskylda til barnaverndarnefndar sé ávallt virt fái fjölmiðlafólk vitneskju um óviðunandi uppeldisaðstæður hjá barni eða telur hættu á að barn verði fyrir ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Viðauki

Börn eru einstaklingar yngri en 18 ára. Börn njóta tjáningarfrelsis og er það áréttað í Barnasáttmálanum, sem var lögfestur hérlendis með lögum nr. 19/2013, en hann felur í sér viðurkenningu á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, óháð réttindum fullorðinna. Að því sögðu eru börn viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á sérstakri vernd að halda. Endurspeglast það m.a. í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að það geti réttlætt undantekningar frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef það þykir nauðsynlegt til verndar börnum. Á það m.a. við um tjáningarfrelsi. Þegar umfjöllun um börn er birt þarf ávallt að huga að þeirri sérstöðu sem börn njóta, bæði samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindasamningum.

Einnig ber að árétta mikilvægi þess að virða tilkynningarskyldu til barnaverndarnefndar sem kemur fram í 16. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Greinin felur m.a. í sér skyldu til að upplýsa barnaverndarnefnd um óviðunandi uppeldisaðstæður hjá barni eða ef hætta er á að barn verði fyrir ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Hver sem fær vitneskju um slíka háttsemi eða ástand hefur því skyldu til að tilkynna slíkt til barnaverndarnefndar.

Ákveðnar reglur gilda um starfsemi fjölmiðla en þeir starfa eftir lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Sérstaka áherslu ber að leggja á 26. gr. og 27. gr. laganna en þar kemur m.a. fram að fjölmiðlaveitu ber að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti og einnig friðhelgi einkalífs, nema lýðræðishlutverk hennar og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Einnig er kveðið á um bann við hatursáróðri og hvatningu til refsiverðrar háttsemi. Tjáningarfrelsið er ein af grunnstoðum lýðræðis og gegna fjölmiðlar því afar mikilvægu hlutverki í nútímasamfélagi. Skoðanir fólks og umræðan í samfélaginu mótast að miklu leyti af því sem fjölmiðlar setja á dagskrá hverju sinni. Því er mikilvægt að vandað sé til verka í allri umfjöllun sem snýr að börnum, að fjölmiðlar geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera gagnvart börnum og hagi störfum sínum samkvæmt því. Framangreindum viðmiðum er ætlað að styrkja fjölmiðla í að þjóna almannahlutverki sínu með réttindi barna að leiðarljósi.

Hér má nálgast viðmiðin í PDF.

Barnaheill hafa einnig gefið út Viðmið vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum í samstarfi við fleiri aðila. Viðmiðin eru hugsuð sem heilræði fyrir foreldra.