Nýir talsmenn barna á Alþingi leira fyrir málefni barna 

Talsmenn barna á alþingi

,,Það besta fyrir börn er það eina sem er nógu gott,” segir Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem er einn talsmanna barna á Alþingi. Hann er í hópi tólf þingmanna allra flokka á Alþingi, sem hafa skrifað undir yfirlýsingu sem felur í sér skuldbindingu um að hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í störfum sínum. Þetta er í fimmta skipti sem talsmenn barna á Alþingi eru skipaðir.  

Barnaréttindavaktin stóð fyrir viðburðinum á Alþingi þar sem talsmenn barna skrifuðu undir yfirlýsinguna og settu sér jafnframt markmið  fyrir kjörtímabilið í tengslum við réttindi barna. Öll fengu þau verkefni að leira fígúru sem minnir þau á að gæta að hagsmunum og málefnum barna á Alþingi. Þar er átt við öll börn, í alls konar aðstæðum, sem mörg eiga sér ekki málsvara, en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna nær til allra barna óháð uppruna og lagalegri stöðu. 

Að Barnaréttindavaktinni standa níu samtök sem láta sig réttindi og velferð barna varða. Ásamt Barnaheillum – Save the Children á Íslandi standa Heimili og skóli, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn, Samfés, UMFÍ, UNICEF á Íslandi, Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtök að Barnaréttindavaktinni.  

  

Nýir talsmenn barna á Alþingi eru: 

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar / María Rut Kristinsdóttir til vara. 

Kolbrún Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins / Guðmundur Ingi Kristinsson til vara.  

Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins / Bryndís Haraldsdóttir til vara. 

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins / Þórarinn Ingi Pétursson til vara. 

Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins / Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir til vara. 

Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingmaður Samfylkingarinnar / Eydís Ásbjörnsdóttir til vara.