Lífi barna snúið á hvolf í Líbanon

Að minnsta kosti 55 börn voru drepin í árásum Ísraelshers á suður- og austurhluta Líbanon í gær, mánudag. Áætlað er  að 274 manns hafi farist og meira en þúsund særst.  Alls 345.000 börn hafa neyðst til að flýja heimili sín ásamt fjölskyldum sínum, í örvæntingu um að finna öruggan stað. 

Öllum skólum verið lokað 

Jennifer Moorehead, framkvæmdastjóri Barnaheilla í Líbanon, segir lífi barna hafa verið snúið á hvolf síðustu daga. ,,Okkar versta martröð er nú að verða að veruleika. Börn í Líbanon hafa fundið fyrir miklum kvíða vegna yfirstandandi átaka í nálægum löndum síðastliðið ár og nú hefur lífi þeirra verið snúið á hvolf. Þetta eru mannskæðar árásir og börn eru að deyja. Öllum skólum í landinu hefur verið lokað og margir þeirra verið notaðir sem athvarf fyrir flóttafólk. Lokanir skóla hefur áhrif á 1.5 milljón barna í landinu,” segir Jennifer. 

Grátandi og hrædd börn 

Loftárásir eru gerðar á þéttbýl svæði og neyðast fjölskyldur til að yfirgefa heimili sín án fyrirvara, einungis með það sem þau treysta sér til að bera. Börn eru grátandi, hrædd við dróna og orrustuþoturnar sem fljúga yfir höfðum þeirra. 

Barnaheill fordæma átökin við Miðjarðarhaf og bera börn hitann og þungann af átökunum. Alþjóðasamfélagið verður að grípa inn í til þess að koma á friði á svæðinu.