Teiknimyndin Leyndarmálið er verkefni sem Barnaheill hafa umsjón með og hvetur skóla landsins til að sýna öllum börnum í 3. bekk myndina og vinna verkefni í framhaldinu.  Teiknimyndin upplýsir börn m.a. um hvað kynferðislegt ofbeldi er og hvernig þau geti brugðist við slíkri ógn.  Einnig muninn á góðum og slæmum leyndarmálum, þar sem góð leyndarmál eru yfirleitt eitthvað spennandi og skemmtilegt.  Góðum leyndarmálum má einn daginn segja frá.  Slæm leyndarmál eru leyndarmál sem geta látið viðkomandi líða illa og má alls ekki segja neinum frá – aldrei.  Slík leyndarmál eiga ekki að vera ,,í boði”. 

Verkefnið hefur frá byrjun hlotið jákvæð viðbrögð frá fagaðilum, yfirvöldum, skólastjórum, foreldrum og almenningi. Teiknimyndin Leyndarmálið er kennsluefni sem grunnskólum landsins hefur staðið til boða allt frá árinu 2011 til að sýna börnum í 3. bekk.

Teiknimyndin gerir kennurum kleift að ræða við nemendur á opinn og frjálslegan hátt um hvað er rétt og hvað er rangt þegar kemur að einkastöðum barna. Það tekur u.þ.b eina kennslustund að leggja efnið fyrir. Kennarar eru hvattir til að undirbúa sig vel fyrir sýningu myndarinnar með því að sækja námskeiðið Verndarar barna og kynna sér undirbúningsefnið á heimasíðu Barnaheilla.

Skólum stendur til boða að fá bókamerki fyrir nemendur sem þeir fara með heim eftir sýninguna til að sýna foreldrum og ræða við foreldra sína um fræðsluna.

Myndina er hægt að nálgast hér fyrir neðan, ásamt stuðningsefni fyrir kennara og dreifiefni fyrir börnin.

Stuðningsefni fyrir kennslu
Veggspjald
Mynd til að lita

Smellið hér til þess að hlaða niður teiknimyndina í mp4