Heillagjöf er gjöf sem skiptir máli

Sala Heillagjafa Barnaheilla fyrir jólin 2024 er hafin og að þessu sinni rennur ágóði sölunnar til barna sem búa á átakasvæðum. Um 473 milljónir barna búa á átakasvæðum í dag og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Þessi börn búa við óöryggi og ótta alla daga og eru berskjölduð fyrir hvers kyns ofbeldi. Börn eru helstu fórnarlömb átaka og fjöldi brota gegn börnum á átakasvæðum hefur aukist um 15% síðastliðið ár.
UMVEFÐU BÖRN Á ÁTAKASVÆÐUM ÞESSI JÓL
Í vefverslun Barnaheilla er fjöldi Heillagjafa sem hægt er að velja úr til þess að styðja börn á átakasvæðum og umvefja þau kærleika og hlýju þessi jól.
Þú getur keypt sálrænan stuðning, hlýjan fatnað, matarpakka og drykkjarvatn svo fátt eitt sé nefnt.
Allt þetta kemur að góðum notum fyrir börn sem búa við hörmulegar aðstæður á átakasvæðum. Barnaheill munu sjá til þess að börn á átakasvæðum njóti góðs af gjöfinni.
Með kaupum á Heillagjöf færðu sent fallegt gjafabréf í netpósti, í stærð A4, sem hægt er að prenta út og setja í jólapakkann.
Lana er eitt þeirra barna sem þú gætir umvafið með kaupum á heillagjöf

Lana fæddist þann 26. mars 2024 og var fyrsta barnið sem fæddist á nýrri fæðingarstöð Barnaheilla – Save the Children á Gaza. Móðir hennar, Tima sem er 26 ára gömul, er þakklát fyrir að hafa fætt Lönu á fæðingarstofunni og fengið þá aðstoð sem hún þurfti þar.
Daginn eftir fæðinguna voru mæðgurnar útskrifaðar og héldu þá heim í flóttamannatjaldið þar sem Tima býr.

Aðstæðurnar í tjaldinu eru ekki viðunandi en þar er hreint drykkjarvatn af skornum skammti og mikill kuldi. Á þriðja ævidegi sínum veiktist Lana alvarlega og fór Tima þá með hana aftur á fæðingarstöðina.
Starfsfólk Barnaheilla – Save the Children brugðust hratt við og veittu Lönu viðeigandi aðstoð og stuðning í gegnum veikindin.