Lög um grunnskóla, aðalnámskrá og grunnþættir menntunar eiga að tryggja börnum þau réttindi sem kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og jafnframt að tryggja að þau fái menntun í mannréttindum.

Námsvefurinn barnasattmali.is og veggspjöld um Barnasáttmálann eru sérstaklega ætluð fyrir grunnskóla. Veggspjöldin og bækling má nálgast á námsvefnum. Grunnskólum og frístundaheimilum tengd grunnskólum er því sérstaklega bent á að vinna með það efni sem þar er að finna í tilefni af Degi mannréttinda barna. Á vefnum er ýmis fróðleikur og gagnvirk verkefni fyrir nemendur auk ýmissa upplýsinga fyrir kennara og foreldra um Barnasáttmálann og mannréttindi barna, ásamt kennsluhugmyndum. Gagnvirku verkefnin fyrir yngri börnin nefnast: Réttindi og forréttindi – Um Barnasáttmálann og aðrar skuldbindingar – Allir eru einstakir – Fjölskyldur – Skólinn. Fyrir eldri börnin eru gagnvirku verkefnin: Réttindi allra barna – Heilsa, menntun, þroski – Öryggi og vernd – Fjölskyldan

Í kennsluhugmyndum er bent á ýmis verkefni sem hægt er að vinna sem ítarefni við gagnvirku verkefnin á vefnum.

Í tilefni af Degi mannréttinda barna er kjörið að vinna þvert á árganga og stig og hafa afmælis- eða uppskeruhátíð í lokin með kynningu á verkefnum eða réttindagöngu þar sem áréttað er hvað er vel gert og hvað þarf að bæta og hvað þarf að gera til að uppfylla þau réttindi sem börn hafa samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvað hefur áunnist frá því sáttmálinn var samþykktur og hvar er enn verk að vinna?

Þar sem því er komið við gætu allir grunnskólar sveitarfélagsins og jafnvel leik- og framhaldsskólar sameinast í réttindagöngu.

Grunnþættir mannréttinda barna

Grunnþættirnir eins og þeir birtast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru vernd, umönnun og þátttaka:

Vernd: Í Barnasáttmálanum er kveðið á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem til lífs og þroska. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, gegn vanrækslu og einelti. Einelti getur átt rætur sínar að rekja allt niður í leikskóla með þvi að barn er útilokað frá leik eða sett er út á útlit eða athafnir þess. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkt.

Umönnun: Öllum börnum á að tryggja velferð á sviði menntunar, heilbrigðis og félagsmála. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna en allir þeir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra bera einnig ábyrgð – og það gera stjórnvöld líka.

Þátttaka: Öll börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða og taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Jafnframt er mikilvægt að börnum sé leiðbeint við að setja sig í spor annarra, taka tillit og hlusta á aðra.

Við vinnu verkefnanna er gott að hafa þessa grunnþætti að leiðarljósi.

Hér eru að auki hugmyndir að viðfangsefnum sem hægt er að vinna sérstaklega í tengslum við Dag mannréttinda barna:

1. Barnasáttmálinn

Rætt er við börnin um að til sé samningur um þau réttindi sem öll börn eiga. Til eru veggspjöld og bæklingar með ákvæðum Barnasáttmálans sem hægt er að vinna með, með sáttmálann í heild eða ákveðnar greinar. Hér má sjá veggspjöldin og bækling.

2. Barnasáttmálinn í barnabókum

Með innleiðingu Barnasáttmálans er átt við að ákvæði sáttmálans séu komin til framkvæmda, svo sem hjá sveitarfélögum eða skólum, þ.e. að ákvæði sáttmálans endurspeglist í raunverulegri vinnu með börn og/eða þar sem unnið er að málefnum þeirra.

  • Bókin Rúnar góði eftir Hönnu Borg Jónsdóttur er lesin og rædd. Í bókinni eru hugleiðingar sem tengjast sögunni og Barnasáttmálanum. Bókin gefur tækifæri á fjölbreyttum umræðum og viðfangsefnum um mismunandi stöðu og líf barna.
  • Börnin skoða aðrar barnabækur sem hæfa þeirra aldri með tilliti til þeirra réttinda sem börn eiga samkvæmt Barnasáttmálanum. Aðstæður barnanna í bókunum eru skoðaðar og ræddar. Í sumum bókum eru persónurnar dýr sem eru manngerð. Það er kjörið að ræða. Að skoða barnabækur og tjá sig um aðstæður sögupersóna í stað aðstæðna úr lífi raunverulegra barna eða þeirra eigin lífi getur verið auðveldara fyrir börnin, en getur jafnframt hjálpað börnum að tjá sig um eigin aðstæður. Hægt er að velja eina bók sem hópurinn skoðar saman eða að hver og einn velur bók. Hægt er að velja ákveðna þætti, svo sem út frá grunnþáttum Barnasáttmálans sem eru vernd, umönnun og þátttaka.

Dæmi um þætti til að skoða: Við hvernig aðstæður búa börnin í bókinni? Eiga þau foreldra eða aðra sem sjá um þau? Hvernig koma börnin fram hvert við annað? Ganga þau í skóla? Fá þau hjálp ef þau þurfa? Fá börnin að segja skoðanir sínar? Útfærslan getur verið með ýmsu sniði; umræður, saga leikur eða myndir.

3. Öll börn eiga sama rétt (mismunandi fjölskyldur, mismunandi uppruni, framtíðardraumar)

Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og þroska. Aðstæður barna og uppruni er mismunandi. Öll hafa þau drauma um gott líf. Börnin teikni framtíðardrauma sína og myndirnar eru ræddar. Hvað þarf til til að framtíðardraumarnir rætist?

4. Skoðanir barna – skoðanafundur

Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga börn rétt á að láta skoðanir sínar í ljós um málefni er þau varða og taka á réttmætt tillit til skoðana þeirra. Mikilvægt er að segja börnunum að þau eigi rétt á að segja skoðanir sínar og að fullorðnir eigi að hlusta á börnin. Börnin segja skoðanir sínar á ákveðnum fyrirfram gefnum málum, svo sem skólalóðinni, kennslustundum, samverustundinni eða öðru sem brennur á börnunum eða hefur verið á dagskrá í skólanum. Skoðanir barnanna eru skrifaðar upp og unnið með þær. Umræðum er stýrt þannig að rætt sé um málefni en ekki um ákveðna einstaklinga.

5. Verum vinir

Einn af meginþáttum í þroska og velferð barna er að þeim líði vel í skólanum og að þau eigi félaga og vini. Það er á ábyrgð skólans að tryggja börnum umhverfi þar sem er samkennd, virðing fyrir margbreytileikanum og góður skólabragur, umhverfi þar sem öll börnin eiga félaga og ekki er jarðvegur fyrir einelti. Til þess að búa börnum þannig umhverfi er mikilvægt að líta á margbreytileikann í hópnum sem styrkleika og ekki gera ráð fyrir að börn breyti klæðnaði sínum eða öðru til að falla í hópinn. Til þess að stuðla að samkennd og góðum skólabrag er hægt að vinna ýmis verkefni. Í hópavinnu er mikilvægt að gæta að því hvernig er valið í hópa og koma þannig í veg fyrir að einhverjir nemendur upplifi að þeir séu ekki vinsælir sem vinnufélagar. Nemendur geta til dæmis dregið samstæðuspil og þeir sem fá eins mynd vinna saman. Í lok verkefnavinnunnar er hægt að hafa uppskeruhátíð eða vinagöngu.

Dæmi um verkefni:

  1.  Vinir á öllum aldri: Eldri og yngri börn tengd saman í leik, þar sem þeir eldri aðstoða þá yngri við ýmis verkefni, veita þeim leiðsögn og stuðning, úti sem inni. Hér þurfa einkunnarorðin að vera: virðing, margbreytileiki, vinátta og umhyggja.
  2. Styrkleikar:Allir hafa styrkleika, allir eru góðir í einhverju. Mikilvægt er að vinna með styrkleika barnanna og ræða þá. Börnin sitja í hring og segja í hverju þau eru góð og/eða í hverju sá eða sú sem situr við hlið þeirra er góður í. Unnið er með gildi hróssins. Gott er að starfsfólk taki að fullu þátt með börnunum, hrósi bæði þeim og samstarfsfólki. Hægt er að sitja í hring og þau nefna styrkleika sessunauta sinna. Hægt að útfæra verkefnið með textagerð, mynd eða á annan hátt.
  3. Vinamyndir: Hvað gera vinir saman? Er hægt að eiga marga vini? Geta stelpur og strákar verið vinir? Geta vinir orðið ósáttir. Nemendur eru settir saman í pör eða hópa og látnir teikna hvað sameinar þá og getur gert þá að vinum.

 6. Verndarar mínir

Rætt er við börnin um að öll börn eigi rétt á að þau sé vernduð og þeim sýnd umhyggja. Börnin teikna verndara sína og svo er rætt um myndirnar. Myndirnar gætu verið fjölbreyttar, á þeim eru líklega í flestum tilfellum foreldrar eða forsjáraðilar barnanna, en einnig afar, ömmur, stjúpforeldrar, systkini, starfsfólk skólans og fleiri. Mikilvægt að umræðurnar taki mið af gildi margbreytileikans. Gott er að spyrja börnin af hverju eða hvernig þeir sem eru á myndunum eru verndarar þeirra.

Að lokum er svo kjörið að fara í réttindagöngu, halda uppskeruhátíð og halda upp á afmæli Barnasáttmálans.