Mansal á börnum

Um mansal er að ræða þegar þegar fullorðinn einstaklingur notfærir sér annan einstakling sér til framdráttar, þótt engin merki séu um þvingun, blekkingar, valdbeitingu eða annars konar ofbeldi. Þegar einstaklingurinn er yngri en 18 ára er um að ræða mansal á barni. Flestir tengja mansal við það að einstaklingur sé fluttur á milli staða, afhentur, hýstur eða tekið á móti honum í þeim tilgangi að hafa not af honum. Flutningur frá einum stað til annars þarf þó ekki að vera forsenda mansals. Á hverju ári eru þúsundir barna fórnarlömb mansals. Þau eru beitt mansali í heimalandi sínu eða eru flutt á milli staða eða landa í þeim tilgangi að vera notuð í kynferðislegum tilgangi, við ólöglegar ættleiðingar, til að nýta úr þeim líffæri, við ólöglega vinnu, til að betla eða stela o.fl. 

Mikilvægt er að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi þegar upp kemst um mansal. Staða barna, til dæmis sem innflytjenda, skal vera aukaatriði þegar mál þeirra eru ráðin. Tryggja þarf börnum áfallahjálp og aðhlynningu. Þau þurfa enn fremur að fá aðgang að allri þjónustu á borð við félags- og heilbrigðisþjónustu. Börn þurfa sérstakan tilsjónarmann á meðan málefni þeirra eru til athugunar.

Kynferðisofbeldi gegn gjaldi / sex tourism

Börnum sem orðið hafa fórnarlömb mansals til að nota í kynferðislegum tilgangi hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum. Vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna leiðast um 1–2 milljónir barna út í vændi á ári eða eru beitt kynferðisofbeldi gegn gjaldi. Þegar fullorðinn einstaklingur á í kynferðislegu sambandi við barn telst það alltaf kynferðisofbeldi gegn barninu. Hinn fullorðni getur ekki réttlætt ofbeldið með menningarmun, samþykki barnsins eða að barnið hafi haft frumkvæði að samskiptunum.

Samkvæmt íslenskum lögum geta þeir sem verða uppvísir að kynferðislegu samneyti við barn í öðru landi verið dæmdir fyrir það á Íslandi jafnvel þó að slíkt sé ekki ólöglegt í landinu þar sem brotið fer fram.

Þeir sem beita börn þess konar ofbeldi eru oftast ferðamenn frá Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, en einnig menn í viðskiptaferðum, farandverkamenn, hermenn, diplómatar o.fl. Þessir aðilar nýta sér neyð barnanna og ferðast gjarnan í þeim tilgangi að beita börn kynferðisofbeldi. Börnin sem um ræðir búa yfirleitt við fátækt og erfiðar aðstæður og bera ekki ábyrgð á þeim aðstæðum og því ofbeldi sem þau verða fyrir. Ofbeldið er gjarnan myndað og því dreift á netinu. Þannig er ofbeldið endurtekið í hvert sinn sem myndefnið er skoðað.

Afleiðingar ofbeldisins eru mjög alvarlegar. Börnin þurfa að takast á við tilfinningalegan, andlegan og líkamlegan skaða. Það er gríðarleg hætta á kynsjúkdómum (þ.á m. HIV/AIDS) og á að stúlkubörn verði þunguð. Börnin verða gjarnan félagslega einangruð og háð fíkniefnum. Þau fá yfirleitt litla aðstoð þar sem heimalönd þeirra eru ekki í stakk búin til að veita þeim hana. Þetta eru í flestum tilfellum fátæk lönd, með undirmannaða lögreglu og vanmáttuga félagsþjónustu. Börnin sitja þó uppi með afleiðingar ofbeldis sem framið var af fólki frá mun efnaðri löndum, s.s. löndum Vestur-Evrópu. Brýnt er að hinar efnuðu þjóðir axli sína ábyrgð og eigi samvinnu við aðrar þjóðir heims um að stöðva ofbeldið, vernda börnin og veita þeim aðstoð. Nauðsynlegt er að allir geri sér grein fyrir því að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn heimsins rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi, þar með er töldu kynferðisofbeldi eða þátttöku í hvers kyns kynferðislegri háttsemi, vændi eða klámi. Börn eru einstaklingar yngri en 18 ára.

Ferðaþjónustan og Heilsugæslan

Á undanförnum árum hefur verið vitundarvakning meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu um mikilvægi þess að stemma stigu við því að ferðamenn beiti börn kynferðisofbeldi gegn gjaldi í ferðum sínum erlendis. Fjöldi erlendra ferðaþjónustufyrirtækja hefur, í samstarfi við frjáls félagasamtök á borð við Save the Children, gert og undirritað siðareglur um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun í ferðaþjónustu. Þar með hafa þau lofað að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að koma í veg fyrir slíkt. Ýmsar ferðaskrifstofur á Íslandi selja ferðir til staða sem þekktir eru fyrir mansal á börnum, staða þar sem börn eru beitt kynferðisofbeldi gegn gjaldi. Barnaheill – Save the Children á Íslandi telja mjög mikilvægt að íslenskir aðilar í ferðaþjónustu móti stefnu og verklagsreglur og undirriti siðareglur sem unnið er eftir. Æskilegt væri að á vefsíðum ferðaskrifstofa, í bæklingum og/eða með ferðagögnum fylgdu leiðbeiningar til ferðamanna um ábyrga ferðamennsku og hvað þeir eiga að gera verði þeir varir við kynferðislegt ofbeldi á börnum í ferðum sínum.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins látið útbúa póstkort sem dreift er til ferðamanna sem leita til heilsugæslunnar vegna fyrirhugaðra ferðalaga á erlendri grundu. Þar eru ferðamenn hvattir til að vera ábyrgir ferðamenn og tilkynna til ferðaskrifstofunnar, fararstjóra eða lögreglu ef þeir hafa grun um að barn sé beitt kynferðisofbeldi. Þannig leggi þeir sitt af mörkum til að vernda barnið gegn ofbeldinu og koma því til hjálpar.

Á www.barnaheill.is er ábendingahnappur þar sem hægt er að tilkynna um óviðeigandi eða ólöglegt efni á netinu. Þar er jafnframt hægt að tilkynna um fullorðna sem misnota börn á ferðum sínum erlendis.

Ýmis frjáls félagasamtök eins og Barnaheill – Save the Children eru í samstarfi við ECPAT (End Child Prostitution, Child Pornography and Trafficking of Children for Sexual Purposes), sem eru frjáls félagasamtök sem hafa það að markmiði að binda enda á kynferðislega misnotkun barna í atvinnuskyni.

Vegalaus börn í Evrópu

Til vegalausra barna í Evrópu teljast börn yngri en 18 ára sem eru án umsjár foreldra eða forsjáraðila. Þau eru gjarnan á vergangi og hafa flúið frá heimalandi sínu eða jafnvel verið send á brott af fjölskyldum sínum í von um betra líf, menntun eða heilbrigðisþjónustu. Önnur eru að leita uppi fjölskyldu sína eða eru fórnarlömb mansals.

Engar tölulegar upplýsingar eru til um fjölda vegalausra barna í Evrópu. Einungis eru til tölur yfir þau börn sem óskað hafa eftir hælisvist. Bakgrunnur vegalausra barna er mismunandi en flest eru á aldrinum 15 til 17 ára, frá löndum í Asíu og Afríku. Þótt margvíslegar ástæður séu fyrir því að börnin yfirgefi heimaland sitt, eiga þau það öll sameiginlegt að hafa búið við slæmar aðstæður, svo sem stríðsástand, fátækt, náttúruhamfarir, mismunun eða ofsóknir. Mikilvægt er að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar mál þess eru ráðin og staða þess sem innflytjenda skal vera aukaatriði. Börn þurfa enn fremur að fá skjótan aðgang að þjónustu á borð við félags- og heilbrigðisþjónustu og geta haldið áfram skólagöngu. Börn þurfa sérstakan tilsjónarmann á meðan málefni þeirra eru til athugunar. Barn skal aldrei sent til síns heimalands nema tryggar aðstæður taki við því. Mikilvægt er að finna fjölskyldu barnsins án þess að stefna barninu eða fjölskyldu þess í hættu.