Eglantyne Jebb stofnaði Barnaheill – Save the Children, ein fyrstu alþjóðlegu mannréttinda-samtök í heimi, árið 1919. Að baki bjó sú trú hennar að öll börn, hver sem þau væru og hvar
sem þau byggju, ættu rétt á heilbrigðu, hamingjuríku og fullnægðu lífi. Upphaflegt markmið samtakanna var að afla fjár til að stemma stigu við skelfilegri stöðu barna í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, einkum í borgum Evrópu, t.a.m. í Berlín og Vín þar sem börn bjuggu
við hungur og berklar og beinkröm voru útbreiddir sjúkdómar. En Eglantyne og samstarfsfólk hennar áttuðu sig fljótt á að víða var pottur brotinn í málefnum barna.
Eitt af hugðarefnum Eglantyne voru mannréttindi barna. Árið 1921 hélt hún á fund
International Union í Genf í Sviss með tillögu að sáttmála fyrir börn. Hann átti að tryggja
börnum alþjóðlega viðurkenningu á sérstöðu þeirra og réttindum og byggði á
stefnuyfirlýsingu þeirri sem Eglantyne hafði ritað fyrir Barnaheill – Save the Children. Niðurstaðan varð hin svokallaða Genfar yfirlýsing Þjóðabandalagsins frá árinu 1924 en í
henni var að finna ýmsar grundvallarreglur um vernd og umönnun barna. Í kjölfar þeirra grófu mannréttindabrota sem börn urðu fyrir í seinni heimstyrjöldinni jókst umræðan um nauðsyn þess að tryggja börnum aukna vernd. Sérstök yfirlýsing um réttindi barnsins var samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1959 og byggðist hún um margt á yfirlýsingu Þjóðabandalagsins. Hvorki Genfar yfirlýsingin né yfirlýsing Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins voru formlega bindandi að þjóðarrétti.
Flest ríki voru sammála um nauðsyn þess að þróa réttindi barna á alþjóðlegum vettvangi enn frekar og veita börnum víðtækari vernd. Af þeirri ástæðu var hafist handa við að undirbúa sérstakan þjóðréttarsamning um réttindi barna árið 1979, en það ár hafði formlega verið útnefnt sem ár barnsins. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oftast nefndur í daglegu tali, var lagður fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, fullbúinn til undirritunar og fullgildingar, þann 20. nóvember árið 1989. Öll lönd heims, utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa staðfest samninginn.
Það má því segja að Eglantyne Jebb sé guðmóðir Barnasáttmálans. Með hugrekki, einbeitni, hugmyndaflugi og skipulagsgáfu vann hún að mikilvægum breytingum í þágu allra barna heims. Eglantyne fæddist árið 1876 inn í vel efnaða sveitafjölskyldu í Shropskíri á Englandi. Hún var ein sex barna og ólst upp í fjölskyldu með sterka samfélagskennd. Eftir sögunám í Lady Margaret Hall háskólanum í Oxford var Eglantyne staðráðin í að verða kennari. Henni varð hins vegar ljóst eftir eitt ár við í St. Peter’s grunnskólanum í Marlborough að hún var ekki á réttri hillu, þó starfið hefði aukið meðvitund hennar um afleiðingar erfiðleika og fátæktar á börn. Clare Mulley, höfundur ævisögu um Eglantyne, skýrir frá því í bók sinni The Woman Who Saved the Children, að Eglantyne hafi ekki verið sérlega gefin fyrir börn („I don‘t care for children… the little wretches“) þegar hún vann sem kennari árið 1900. Hún eignaðist aldrei börn sjálf.
Eglantyne var alla tíð mjög virk í starfsemi Barnaheilla – Save the Children, þrátt fyrir að þjást um margra ára skeið af skjaldkirtilssjúkdómi. Hún þótti sýna frumleika og frumkvæði í rekstri samtakanna, m.a. í markaðsmálum auk þess sem hjálparstarf Barnaheilla – Save the Children vakti athygli fyrir að vera faglegt, ótengt trú og alþjóðlegt.
Eglantyne Jebb lést á hjúkrunarheimili í Genf árið 1928, aðeins fimmtíu og tveggja ára gömul. Hennar er minnst sem andríks stofnanda Barnaheilla – Save the Children sem bjargaði milljónum barna og breytti hugsunarhætti gagnvart réttindum barna til frambúðar.