Dagur mannréttinda barna árið 2024
Daginn tileinkum við hjá Barnaheillum öllum þeim börnum sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og útbjuggum stutt myndband þar sem rætt er við börn sem hafa upplifað slíkt áfall.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa síðustu ár helgað 20. nóvember, sem er dagur mannréttinda barna, vitundarvakningu og fræðslu um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þau réttindi sem öll börn eiga að njóta.
Í ár er engin undantekning á því og höfum við hjá Barnaheillum, í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið, útbúið stutt myndband þar sem rætt er við börn frá Grindavík, Úkraínu og Palestínu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Auk þeirra er rætt við sérfræðing í fjölmenningarmálum. Myndbandinu er ætlað að gefa okkur innsýn í hvernig börnunum líður, hvers þau sakna og hverjir framtíðardraumar þeirra eru. Myndbandið var sent á alla grunn- og framhaldsskóla landsins og fylgdi því verkefni sem er ætlað að fá börnin til að íhuga stöðu og réttindi þessara barna og setja sig í spor þeirra.
Markmiðið með myndbandinu er að vekja athygli á því áfalli sem það er að missa heimili sitt og mikilvægi þess að hlúa vel að þessum hópi barna.