Börn á Gaza eiga skilið framtíð fulla af tækifærum

Í dag er eitt ár síðan átökin stigmögnuðust milli Ísrael og Palestínu. Átök sem hafa haft hryllilegar afleiðingar fyrir saklaus börn. Börn hafa verið drepin, limlest, numin á brott, hrakin frá heimilum sínum, svelt og berskjölduð án verndar alþjóðasamfélagsins. Stríðið á Gaza er stríð gegn börnum, því 43% þeirra sem hafa verið myrt í stríðsaðgerðum Ísraelshers á Gaza eru börn. Börn sem áttu engan þátt í að hefja stríðið.
Eitt ár af stríði og átökum er ári of mikið
Börnin sem enn eru á lífi eru varnarlaus og eiga hvergi öruggt skjól. Grunnmannréttindi þeirra eru þverbrotin. Á hverjum degi standa þau frammi fyrir ofbeldi, ótta, missi, flótta, hungri og tortímingu — hlutum sem ekkert barn ætti að upplifa. Því lengur sem þetta stríð heldur áfram, því flóknara og erfiðara verður að hjálpa börnunum að vinna úr áfallinu.
Undanfarið ár hafa alþjóðasamtök Barnaheilla – Save the Children unnið sleitulaust að því að veita neyðaraðstoð og hjálp á Gaza. Ótal margt er gert til að veita börnum og fjölskyldum þeirra lífsnauðsynlegan mat, vatn, heilbrigðisþjónustu og örugg svæði – þar sem börn fá tækifæri til að leika sér og læra. Börnum sem nú eru varnarlaus og eiga hvergi öruggt skjól.
Til að vernda líf barna þarf vopnahlé
Barnaheill – Save the Children vilja að alþjóðasamfélagið krefji ísraelsk stjórnvöld um að hleypa hjálpargögnum inn og um Gaza án hindrana og að öryggi mannúðarstarfsfólks verði tryggt. Sérhvert barn á rétt á að vera öruggt, að lifa, læra, vaxa og dreyma — grunnréttindi sem palestínsk börn hafa kerfibundið verið svipt.
Með því að leggja þitt af mörkum til Neyðarsjóðs barna getur þú hjálpað okkur að halda áfram að veita þau nauðsynlegu úrræði sem börn og fjölskyldur þeirra þurfa til að lifa af á Gaza.
Börn á Gaza eiga skilið framtíð sem er örugg og full af tækifærum, ekki stríði.