
Í dag býr eitt af hverjum sex börnum heimsins, eða 450 milljónir barna á átakasvæðum. Þessi börn eiga í töluvert meiri hættu en önnur börn á að verða fyrir ofbeldi en Sameinuðu þjóðirnar áætla að á degi hverjum séu að meðaltali framin 71 alvarlegt brot gegn börnum á átakasvæðum. Þessar tölur eru byggðar á rannsókn sem framkvæmd var á 15 ára tímabili. Í opinberum gögnum kemur fram að á þessu tímabili voru 104.100 börn drepin, 93.000 börn neydd til hermennsku og 25.700 börn numin á brott af stríðandi fylkingum. Áætla má að þessar tölur séu þó töluvert hærri þar sem ekki eru öll brot tilkynnt.
Börn á átakasvæðum eru berskjaldaðri fyrir kynferðisofbeldi en önnur börn en 17% barna eða 72 milljónir búa á svæðum þar sem vopnaðir hópar beita kynferðisofbeldi sem stríðsvopni. Í dag eiga börn á átakasvæðum í tífalt meiri hættu á að verða fyrir kynferðisofbeldi en fyrir þremur áratugum.

Barnaheill – Save the Children veita mannúðaraðstoð víða um heim til þess að mæta þeirri neyð sem ríkir á átakasvæðum. Barnaheill hafa sett upp svokölluð Barnvæn svæði víða um heim þar sem börn á flótta geta fundið öruggt athvarf til þess að læra eða leika sér. Þau fá einnig sálfræðilegan stuðning frá starfsfólki Barnaheilla.

Rehim,15 ára, er frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Fyrir fimm árum síðan réðst vopnaður hópur inn á heimili hennar í austurhluta landsins. Faðir hennar var drepinn og hún sjálf numin á brott. Móðir hennar náði að flýja með systkini hennar. Rehim var fangi stríðshópsins í heilt ár, þangað til að hún náði að flýja inn í skóginn á meðan hópurinn svaf. Hún hafði verið lengi á vergangi þegar hún hitti starfsfólk Barnaheilla – Save the Children. Hún var mjög vannærð eftir flóttann og var lögð inn á spítala. Eftir viku hafði hún náð upp kröftum og var hún sameinuð fjölskyldu sinni. Fjölskyldan flúði yfir til Úganda þar sem Rehim og systkini hennar sækja skóla. Eftir skóla og um helgar fær Rehim að sækja barnvæn svæði Barnaheilla en þar leggur hún mikið kapp á prjóna- og saumaskap
.
Börn sem búa á átakasvæðum



