NÝ BÓK 2022
Einn liður í forvörnum og fræðslu Barnaheilla um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi er útgáfa bókarinnar Líkaminn minn fyrir 0-6 ára börn. Bókin er skrifuð til að aðstoða fullorðna og börn á leikskólaaldri við að ræða saman á opinn og óþvingaðan hátt um leiðir til að vernda börn gegn ofbeldi. Meginmarkmið bókarinnar er að gera börn meðvituð um yfirráð þeirra yfir líkama sínum og tilfinningum og að styrkja þau í að setja persónuleg mörk. Fjallað er um snertingu og hvernig hún getur verið bæði jákvæð og neikvæð.
Það er á ábyrgð hinna fullorðnu að vernda börn gegn ofbeldi. Foreldrum, forsjáraðilum og öllum
þeim sem vinna með börnum ber skylda til að vernda börn gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er.
Bókin Líkaminn minn 0-6 ára kom fyrst út árið 2022 og kemur í stað bókarinnar Þetta er líkaminn minn sem hefur verið dreift allt frá árinu 1998.
Samtökin eru í samstarfi við heilsugæslustöðvar um dreifingu bókarinnar til foreldra. Starfsfólk heilsugæslustöðva getur pantað bókina á vefsíðu samtakanna.