Útgáfa á Blaði Barnaheilla hófst að nýju eftir 15 ára hlé árið 2013 en var seinast gefið út árið 2019. Blaðið er ársrit, gefið út snemmsumars og í því er farið yfir helstu verkefni og áherslur.

2019

Meðal þess sem lesa má í blaðinu þetta árið er viðtal við Sigríði Birnu Valsdóttur ráðgjafa hjá Samtökunum ´78, en samtökin hlutu Viðurkenningu Barnaheilla í fyrra.  Þá er viðtal við Sigríði Björnsdóttur fyrrum framkvæmdastjóra Verndara Barna – Blátt áfram. Stiklað er á stóru í 100 ára sögu Barnaheilla – Save the Children, en kennslukonan Eglantyne Jebb stofanði samtökin árið 1919. Hún gerði uppkast að sáttmála um réttindi barna árið 1924 sem varð grunnur að barnasáttmála SÞ. Fjallað er um heimsátak Barnaheilla – Save the Children, sem fram fer í tilefni aldarafmælisins, undir kjörorðunum Stöðvum stríð gegn börnum. Það hófst formlega 16. maí og tóku nemendur Rimaskóla þátt í viðburði í tilefni af því ásamt þúsundum barna og fullorðinna í öðrum löndum víða um heim.

Hér má lesa blaðið í heild sinni.

2018

Meðal efnis í blaðinu að þessu sinni er frásögn af námstefnu um Vináttu – forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti. Guðjón Davíð Karlsson leikari, eða Gói eins og hann er gjarnan kallaður, var einn af þeim sem hélt erindi á námstefnunni. Í blaðinu er viðtal við hann um reynslu hans af einelti.

Fleiri viðtöl er að finna í blaðinu. Rætt er við Salvöru Nordal, umboðsmann barna, og Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins, en Kvennaathvarfið hlaut Viðurkenningu Banaheilla árið 2017. Þá er viðtal við Birte Harksen fagstjóra tónlistar á leikskólanum Urðarhóli um tónlistarefnið sem fylgir Vináttu og Najmo Cumar Fiyasko úr ungmennaráði Barnaheilla segir frá lífsreynslu sinni.

Að vanda er fjallað um hin ýmsu verkefni sem samtökin vinna að og nýr formaður samtakanna, Harpa Rut Hilmarsdóttir, ávarpar lesendur. Þar hvetur hún til þess að við hlustum á raddir barna til að heimurinn verði betri.

Blaðið má nálgast í heild sinni hér.

2017

Vináttuverkefni samtakanna er aðalþema blaðsins og viðtal við nýjan verndara verkefnisins, Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og konu hans, Elizu Reid. 

Í blaðinu kennir ýmissa grasa. Þar er farið yfir innlent og erlent starf og nokkur þeirra verkefna sem samtökin vinna að. Meðal efnis er viðtal við Þorgrím Þráinsson rithöfund sem hlaut viðurkenningu Barnaheilla, umfjöllun um fátækt barna í Evrópu, sagt frá umhverfisstefnu Barnaheilla og ungmennaráðinu og nýtt merki ráðsins kynnt til sögunnar.  Í blaðinu er einnig sagt frá skýrslu Barnaheilla – Save the Children, Börn án bernsku, þar sem fjallað er um þær hundruðir milljóna barna sem ekki fá notið bernsku sinnar af ýmsum ástæðum.

Þá er sagt frá almennum viðmiðum sem Barnaheill hafa gefið út um umfjöllun um börn í fjölmiðlum. Viðmiðin eru gerð í samvinnu við Fjölmiðlanefnd, SAFT, UNICEF á Íslandi og umboðsmann barna.

Blaðið má nálgast í heild sinni hér.

2016

Vináttuverkefni Barnaheilla er í forgrunni blaðsins að þessu sinni þegar tilraunavinnu er lokið og reynsla er komin á verkefnið hér á landi. Í blaðinu eru viðtöl og upplýsingar um Vináttu sem er forvarnarverkefni gegn einelti fyri 3ja–8 ára börn.  

Hrafn Jökulsson, viðurkenningahafi Barnaheilla 2015 er í viðtali og sagt er frá viðurkenningarathöfninni í máli og myndum.

Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, fjallar í blaðinu um tálmanir og sjálfstæðan rétt barna til samvista við báða foreldra sína. Uppkomið barn deilir reynslu sinni af því að þekkja ekki föður sinn og farið er yfir réttindi barna til að þekkja og umgangast báða foreldra.

Talsmenn barna á Alþingi segja frá því hvernig þeir líta á réttindi barna eftir að þeir tóku við hlutverkinu og segja frá málum sem þeir hafa beitt sér fyrir í þágu barna.

Ungmennaráð Barnaheilla segir frá starfi sínu og deilir sögum af verkefnum og fundum sem fulltrúar ráðsins hafa setið.

Gjaldfrjáls grunnskóli hefur verið baráttumál samtakanna og fjallað er um rétt barna til grunnmenntunar án endurgjalds.

Þá er sagt frá ýmsu úr starfi Barnaheilla í blaðinu síðasta árið, bæði innanlands og erlendis.

Blaðið má nálgast hér.

2015

Vináttuverkefni Barnaheilla sem hófst í aðlögunar- og tilraunaskyni í sex leikskólum síðastliðið haust eru gerð skil og árangur af verkefninu skoðaður.

Meðal annars efnis í blaðinu eru greinar frá fulltrúum Ungmennaráðs Barnaheilla, greinar um fátækt, mismunun, börn í fjölmiðlum, heimilisofbeldi, erlent starf og sagt frá ýmsu úr starfi Barnaheilla síðasta árið.

Blaðið má nálgast hér.

2014

Afmælisrit Barnaheilla á 25 ára afmælisárinu var gefið út í maímánuði. Meginþema blaðsins er barnafátækt. Birt eru viðtalsbrot við íslensk börn sem alin eru upp við fátækt, greinar um fátækt og viðtal við Þóru Kemp, deildarstjóra félagslegrar Þjónustumiðstöðvar í Breiðholti. Meðal efnis í blaðinu eru einnig viðtöl við Vigdísi Finnbogadóttur, verndara Barnaheilla, Loft Kristjánsson, rannsóknarlögreglumann sem rannsakar ábendingar um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu og  Arnór Gauta Jónsson, formann ungmennaráðs Barnaheilla. Fyrrverandi framkvæmdastjórar líta einnig um öxl og stiklað er á stóru í sögu samtakanna.

Blaðið má nálgast hér.

2013

Farið er yfir helstu verkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í blaðinu auk þess sem nokkrir einstaklingar leggja samtökunum lið með því að deila reynslu sinni með málefni sem snúa að starfsemi samtakanna. Jón Gnarr, borgarstjóri deilir reynslu sinni af einelti, Gunnar Hansson af kynferðislegu ofbeldi og Blær Bjarkardóttir Rúnarsdóttir og móðir hennar, Björk Eiðsdóttir, segja frá baráttu Blævar fyrir nafni sínu fyrir íslenskum dómstólum. Auk þess eru í blaðinu fjöldi annarra greina og fróðleiks sem snýr að mannréttindum barna.

Blaðið má nálgast hér.