Barnaheill og mennta- og barnamálaráðuneyti undirrita samstarfssamning

Í dag undirrituðu Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla og Ásmundur Einar Daðasson, Mennta- og barnamálaráðherra, samning um áframhaldandi samstarf í þágu farsældar barna. Markmið samningsins er að styðja við rekstur og starfsemi Barnaheilla í því að vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

,,Þessi samningur er okkur mjög mikilvægur inn í áframhaldandi starfsemi okkar hér hjá Barnaheillum. Það eru fjölmörg verkefni á dagskrá hjá okkur á þessu ári og skuldbindum við okkur með þessum samningi að þróa þau áfram, halda úti öflugri fræðslu og vinna með fyrirbyggjandi hætti að góðum samskiptum barna og við börn með fjölbreyttum hætti,” segir Tótla.

Meðal þeirra verkefna sem samningurinn leggur áherslu á er Vinátta – forvarnarverkefni gegn einelti. Halda úti ráðgjöf þar sem börn og fullorðnir geta leitað upplýsinga um réttindi barna sem og þýða og gefa út fræðslumyndbönd um netöryggi.