Útgáfa á efni til forvarna og fræðslu er ríkur þáttur í starfsemi Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Þar ber hæst útgáfa efnisins Vinátta – Fri for mobberi sem ætlað er að fyrirbyggja einelti og er ætlað leikskólum og yngstu bekkjum grunnskóla. Einnig standa Barnaheill fyrir verkefninu Verndarar Barna sem er forvarnarverkefni gegn kynferðisofbeldi á börnum. Verndarar barna er hluti af fræðslu Barnaheilla eftir að samtökin Blátt áfram sameinuðust Barnaheillum árið 2019. 

Einnig standa Barnaheill að útgáfu efnis um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í samvinnu við fleiri aðila. 

Að auki hafa Barnaheill gefið út bókina Þetta er líkami minn. Hún er fyrir ung börn og er ætlað að gera þau meðvituð um yfirráð yfir eigin líkama og um tilfinningar.  Samtökin hafa einnig gefið út bækling sem ber heitið Ofbeldi – einelti – vanræksla. Hann hefur að geyma upplýsingar um ofbeldi og hvert má leita verði barn fyrir ofbeldi eða ef grunur vaknar um að barn sé beitt ofbeldi. Árið 2016 kom út endurgerð veggspjalds um slysavarnir á heimilum. Þá hafa samtökin gefið út póstkort í samstarfi við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með hvatningu til ferðamanna sem þangað leita um að tilkynna grun um kynferðisofbeldi gegn barni á erlendri grundu. Hægt er að panta efnið á vefsíðu samtakanna.