Hafa skal í huga, að tilkynna ber grun um vanrækslu eða ofbeldi og að sá sem tilkynnir þarf ekki og má ekki hefja sjálfstæða rannsókn eða aðrar aðgerðir vegna málsins. Leitið til 112, 1717 og  Barnarverndarstofu

Tilkynningarskylda gagnvart barnarverndarnefndum.

Samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við ofbeldi eða áreitni skylda til að tilkynna það barnaverndarnefnd. Í 17 gr. sömu laga er sérstök áhersla lögð á tilkynningarskyldu þeirra sem starfa með börnum. Nánari upplýsingar um tilkynningaskyldu og íslensk lög er að finna á www.bvs.is undir: lög og reglugerðir.

Hvert er hægt að leita?

Ef um börn undir lögaldri er að ræða, ber að tilkynna það til barnaverndarnefnda. Er þá fyrst og fremst leitað til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr. Barnaverndarnefndir starfa í öllum bæjarfélögum. Nánari upplýsingar um þær má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig beri að bregðast við, ef grunur leikur á að brotið hafið verið á barni. Barnaverndarnefndir hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki sem tekur við tilkynningum og gerir viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.

Ef þú vinnur með eða berð ábyrgð á barni sem þig grunar að sæti ofbeldi ber þér að tikynna það. Ef þú ert ekki viss, hringdu í Barnahús 530-2500. Þar getur þú talað við einstaklinga sem vinna með börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og geta aðstoðað þig við að greina merkin.

Neyðarlínan 112  veitir aðgang að öllum barnaverndarnefndum landsins. Þetta er gert til að auðvelda börnunum sjálfum auk allra annara að koma upplýsingum til barnaverndarnefnda. Þetta auðveldar börnum og aðstandendum þeirra að fá nauðsynlega aðstoð. Öll samskipti fara fram í fullum trúnaði.

Einnig er hægt að hafa samband við Hjálparsíma 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem hafa það á tilfinningunni að þeir séu komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Grunur um kynferðisofbeldi

Ef grunur vaknar um að barn hafi verið beitt kynferðisofbeldi

  • Gott er að barnið finni að það getur treyst þér og að þú sért ekki hrædd/-ur að heyra hvað það hefur að segja.
  • Eitt af því sem hægt er að gera er að tala um leyndarmál, að stundum geti leyndarmál verið vond eða erfið og þá sé gott að segja frá þeim.
  • Bókina Einkastaðir líkamans er gott að nota til að ræða við barnið. Bókin veitir foreldrum og aðstandendum góðar upplýsingar um hvernig best sé að ræða við barnið.

Hvað ef barn segir frá?

  • Hlustaðu vel á frásögn barnsins og leyfðu því að ljúka máli sínu.
  • Haltu ró þinni og varastu að sýna svipbrigði sem lýsa ótta og örvæntingu.
  • Spurðu almennra spurninga án þess að spyrja nánar út í einstök atvik eða draga upp úr því nákvæmar lýsingar.

Ef barn segir þér frá erfiðri reynslu er mikilvægast að þú haldir ró þinni og trúir því. Barnið er að opna á eitthvað sem því finnst erfitt og er í fyrstu að kanna viðbrögð þín. Reyndu að spyrja ekki á dæmandi hátt og ef þú þarft að spyrja notaðu þá opnar spurningar eins og „segðu mér meira“, „hvað svo“ eða „segðu mér frá því?“ Ef það vill ekki segja meira skaltu þakka því fyrir að hafa sagt þér frá, taka fram að þetta sé ekki barninu að kenna og að þú munir gera það sem þú getur til að hjálpa því. Varast skal leiðandi spurningar sem geta komið hugmyndum inn hjá barninu eða gera ráð fyrir að eitthvað hafi gerst. Barnið getur þá lokast eða farið að sníða svör sín að spurningum þínum. Betra er að láta fagfólk um flóknari spurningar ef grunur leikur á að barn hafi sætt kynferðisofbeldi. Mundu að þú þarft ekki að verða sérfræðingur og að þú getur leitað þér frekari upplýsinga og talað við fagfólk. Þegar þú hefur heyrt það sem barnið hefur að segja, skrifaðu það þá niður á blað svo þú gleymir því ekki og hringdu í Barnahús eða í barnaverndaryfirvöld sem yfirleitt eru staðsett innan félagsþjónustu í þínu bæjarfélagi. Þar eru sérfræðingar sem geta svarað spurningum þínum um næstu skref. Ef þú ert ekki viss með næstu skref getur þú haft samband við ráðgjafa Barnaheilla með tölvupósti radgjof@barnaheill.is

Stofnanir sem taka við tilkynningum um kynferðisofbeldi:

  • Barnaverndarnefndir starfa í öllum bæjarfélögum. Nánari upplýsingar um þær má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig beri að bregðast við, ef grunur leikur á að brotið hafi verið á barni. Barnaverndarnefndir hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki sem tekur við tilkynningum og gerir viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.
  • Neyðarlínan 112 er opin allan sólarhringin – alla daga ársins. Símanúmerið 112 veitir aðgang að öllum barnaverndarnefndum landsins. Hafa ber í huga að hægt er að hringja og óska eftir aðstoð þó ekki sé fyrir hendi fullvissa um að brotið hafi verið á barni. Þú ert kannski sá eini/eina sem talar fyrir hönd barnsins. Hringdu þótt þú sért í vafa.
  • Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu barnhúss. Ítarlegri upplýsingar um þjónustu barnahúss er að finna á heimasíðu barnahús eða í síma 5302500.
  • Ef þú ert óviss um næstu skref varðandi tilkynningu á barni, má hafa samband við Barnaheill í síma 553 5900 eða barnaheill@barnaheill.is

Hvað gerir barnavernd þegar tilkynning berst um að barn hafi mögulega orðið fyrir kynferðisofbeldi?

Hafa ber í huga að börn búa við margvíslegar aðstæður, fjölskyldur þeirra geta verið margvíslegar og hið félagslega net ólíkt. Það er því aldrei hægt að gefa neina eina mynd af því hvernig barnaverndarnefndir vinna að málefnum þeirra, ætíð þarf að taka mið að hinu einstaka barni og aðstæðum þess. Barnaverndarlögin gefa þó ákveðinn ramma af hlutverki og skyldum barnaverndarnefnda og starfsfólki þeirra.

Eitt aðalmarkmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður, eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Í því felst m.a. að tryggja öryggi barnanna og umönnun þeirra.

Þegar barnaverndarnefnd eða starfsmenn hennar fá tilkynningu um að barn hafi mögulega orðið fyrir kynferðisofbeldi, þarf að skoða tilkynninguna og meta hvort þarna er um rökstuddan grun að ræða áður en tekin er ákvörðun um næstu skref. Á þessu stigi tala starfsmenn barnaverndarnefndar gjarnan aftur við þann sem tilkynnti, til að fá betri mynd af stöðu barnsins og eins er skoðað hvort einhverjar upplýsingar um barnið séu til hjá barnaverndarnefndinni.

Ákvörðun um að hefja könnun getur gerst samdægurs og þarf að framkvæma innan 7 daga. Á þessum tíma er reynt að meta hvort barnið sé í hættu og hvort grípa þurfi til einhverja aðgerða strax, t.d. að taka barnið af heimilinu og finna því öruggan samastað. Jafnframt þarf að athuga hvort barnið hafi einhverja í kringum sig sem það treystir og er fært um að tryggja öryggi þess.

Þegar grunur er um kynferðisofbeldi er í flestum tilvikum málum gjarnan vísað til Barnahúss, en starfsmenn þar eru sérhæfðir í að kanna þannig mál. Skoða þarf hvort málið sé tilkynnt lögreglu, og ef það er gert hefur lögreglan sjálfstæða rannsókn á málinu og talar við alla sem tengjast málinu fyrir utan barnið. Lögreglan fer síðan fram á aðstoð dómara við skýrslutöku af barninu. Dómari ákveður hvar rannsóknarviðtal fer fram og hver ræðir við barnið. Aðstaða Barnahúss og sérfræðikunnátta stendur öllum dómurum til boða.

Nokkur tími getur liðið frá því að grunur vaknar og þar til rannsóknarviðtal fer fram. Þetta er oft erfiður tími fyrir barnið og foreldrana. Mikilvægt er að barnið sé ekki spurt um tilvikin, þar sem of mikil umræða getur spillt fyrir rannsókn málsins. Barnaverndarnefnd á að geta veitt barninu og/eða foreldrunum stuðning þennan tíma, auk þess að útskýra hver næstu skref verða.

Þegar rannsóknarviðtali er lokið og könnun málsins þarf barnaverndarnefnd að skoða á hvern hátt hægt er að veita barninu og foreldrum þess stuðning. Oft á tíðum felst stuðningur við barnið í viðtölum við starfsmenn Barnahúss.