Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hlýtur Viðurkenningu Barnaheilla

F.v. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Harpa Rut Hilmarsdóttir, stjórnarformaður Barnaheilla.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2021 fyrir störf í þágu breytinga í málaflokkum barna og ungmenna. Ásmundur Einar hefur í embætti félags- og barnamálaráðherra sett málefni barna í fyrsta sæti svo um munar. Hann lagði fram fjögur frumvörp auk þingsályktunartillögu í málefnum barna fyrr á þessu ári sem samþykkt voru á Alþingi sem hafa þau í för með sér gjörbyltingu í málefnum barna og ungmenna. Börnin eru í brennidepli og öll þjónusta og kerfin í kringum börnin mun vera samþætt og öllum hindrunum rutt úr vegi.

Samhliða þessum stóru breytingum hafa ýmis verkfæri verið þróuð til að styðja við þessa nýju nálgun og hugsun í málefnum barna. Má þar nefna mælaborð sem safnar og greinir tölfræðigögn til að kalla fram betri mynd af stöðu barna í samfélaginu og hvaða verkefni er brýnt að takast á við og forgangsraða.

Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember. Viðurkenningin er afhent til að vekja athygli á Barnasáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna. Barnasáttmálinn er leiðarljós í öllu starfi Barnaheilla.

Afhending viðurkenningarinnar fór fram í veislusal veitingastaðarins Nauthóls og var streymt á netinu.

Harpa Rut Hilmarsdóttir, formaður Barnaheilla, flutti ávarp og tilkynnti hver hlyti viðurkenninguna. Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti ávarp og afhenti viðurkenninguna. Elsa Margrét Þórðardóttir, nemandi í Öldutúnsskóla flutti ávarp fyrir hönd ungmenna og Oscar Dagur Hernandez Aronsson, nemandi í Klettaskóla flutti frumsamið ljóð. Guðmundur Steingrímsson fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Barnaheilla stýrði athöfninni.