100 árum seinna stöndum við enn vörð um réttindi barna

Við hjá Barnaheillum erum stolt af því að í dag eru 100 ár síðan Eglantyne Jebb, stofnandi alþjóðsamtaka okkar Save the Children, setti fram þá hugmynd að börn eru einstaklingar, ekki eignir fullorðinna, og eigi því skilið að njóta eigin grundvallarréttinda. Hún deildi þessari byltingarkenndu sýn með heiminum þegar hún samdi hina sögulegu Genfaryfirlýsingu um réttindi barna og hvatti Þjóðabandalagið árið 1924 til að útbúa sáttmála fyrir börn til að tryggja réttindi þeirra um vernd og umönnun.

Breytti lífi kynslóða barna

Þann 26. september 1924 samþykkti Þjóðabandalagið yfirlýsingu Eglantyne og þar með var í fyrsta sinn opinberlega lýst yfir að börn ættu sín eigin réttindi. Þar komu grundvallar réttindi þeirra  til menntunar, verndar á neyðartímum, fæðu og öryggis gegn misnotkun skýrt fram.

Yfirlýsing Eglantyne breytti lífi kynslóða barna og markaði upphaf framfara því seinna meir þróaðist hún svo áfram og varð upphafið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

Að standa vörð um réttindi barna er saga Barnaheilla – Save the Children, saga fortíðarinnar, saga nútíðarinnar og saga framtíðarinnar. 

Réttindi barna enn brotin víða um heim

Nú 100 árum síðar stöndum við enn frammi fyrir því að réttindi barna séu brotin víða um heim. Vaxandi ójöfnuður, aukin átök og ofbeldi, gríðarleg áhrif loftslagsbreytinga, fátækt og mismunun eru veruleiki margra barna um víða veröld. Það er því jafn brýnt og nauðsynlegt að styðja börn og krefjast grundvallarréttinda þeirra í dag og var fyrir 100 árum síðan. Barnaheill – Save the Children hafa staðið vaktina í yfir 100 ár, á þeim tíma hefur líf margra barna breyst til batnaðar en því miður stöndum við enn frammi fyrir því að lífi margra barna er ógnað.

staðreyndirnar árið 2024

Eitt af hverjum sex börnum í heiminum alast upp við átök.
400 milljónir barna á grunnskólaaldri geta ekki lesið eða skrifað.
12 milljón stúlkur giftast árlega fyrir 18 ára aldur.
Ein milljón barna deyr árlega vegna hungursneyðar.
Einn milljarður barna lifir við hættuástand vegna loftslagsbreytinga.